JÓLAHUGVEKJA
Nú horfum við fram til aldaskipta en um leið þá er ígrundað það sem að baki er. Einnig horfum við á þau 1000 ár sem íslenska þjóðin hefur lifað með Jesú Krist sér við hlið. Hvernig hefur okkur miðað áfram frá því að við fyrst fengum sem þjóð að heyra boðskap englanna á jólum að okkur væri frelsari fæddur?Það urðu vissulega mikil umskipti á Íslandi þegar þjóðin tók kristna trú fyrir þúsund árum, um það vitnar sagan. Manngildið fékk aðra skilgreiningu, því allir eru metnir jafnir. Allt líf sem anda dregur, getur hugsað og greint millum þess góða og slæma, ungar manneskjur jafnt sem aldraðir búa allar yfir sömu verðmætum. Við erum öll börn hins himneska föður. Já og það fá allir að taka þátt í fagnaðarboðskapnum ef þeir aðeins trúa og treysta Kristi. En þá verður líka að heimila honum inngöngu inn í líf sitt .Íslenska þjóðin hafði þá gæfu til að bera á Þingvöllum eða réttara sagt fulltrúar hennar að taka móti Kristi. Stolt ættum við því að horfa fram á veginn því hann sem hefur verið við hlið okkar verður það áfram ef að við viljum það sjálf. Eða hvað? Það var mörgum sem brá í brún þegar það fréttist að nú væri búið að úthýsa Kristi úr Kringlunni í Reykjavík, þessari stóru verslanamiðstöð þar sem allt er hægt að kaupa fyrir peninga. Hvernig má það vera að myndum af Jesú hafi verið hent út fyrir eitthvað annað sem hægt var að borga fyrir? Ætla verslunareigendur að enda öldina á þennan hátt? Eða er þetta eitthvað tilfallandi sem aldrei mun gerast aftur?Það var eigi rúm fyrir hann í gistihúsi þegar hann kom í heiminn og því gripastallur sá íverustaður sem hann var fyrst lagður í. Honum var úthýst út úr glans og dýrindum síns tíma. Alveg eins og gerðist í Kringlunni stóru en dýrin í Húsdýragarðinum í Laugardal sögðu að velkomnar væru myndirnar af honum. Látum þetta ekki verða svo á nýrri öld. Látum ekki kaupæðið og djásnin öll eyðileggja það sem á að gerast í sálinni. Úthýsum honum ekki heldur leyfum honum að komast að. Til hvers þá að vera að öllu þessu tilstandi.Jólin eru ekki eingöngu gleðigjafi fyrir okkur, heldur og brýning til okkar að muna að allt hefur verið þegið úr hendi Guðs. Honum er hægt að treysta eins og þjóðin hefur gert í þúsund ár. Mér og þér, okkur öllum sem viljum taka á móti frelsaranum sem frelsara, er gefin þessi dýrmæta hátíð friðar og eilífrar birtu. Úthýsum ekki trúnni og traustinu , heldur þorum að játa það fyrir öllum hvað hann er okkur, frelsarinn eini og sanni Jesú Kristur. Guð gefi ykkur heilög jól í hug og hjarta. Að eilífu. Baldur Rafn Sigurðsson