Jólahátíðin er eintómar hefðir
Jólalögin fá að óma í jólaundirbúningnum hjá Silju Dögg Gunnarsdóttur
Silja Dögg Gunnarsdóttir er mikið jólabarn og hefðirnar eru í hávegum hafðar hjá henni og fjölskyldu hennar. VF lagði fyrir hana nokkrar jólaspurningar.
Jólabíómyndin sem kemur þér í jólaskap? Mínar uppáhalds eru Home Alone og Pólarhraðlestin.
Sendir þú jólakort eða hefur Facebook tekið yfir? Ég sendi yfirleitt alltaf jólakort og svo jólakveðjur í útvarpinu á Rás 1. Það er svo hátíðlegt.
Ertu vanaföst um jólin, er eitthvað sem þú gerir alltaf um hátíðarnar? Jólahátíðin er eintómar hefðir og vani hjá minni fjölskyldu. Ég baka auðvitað alltaf nokkrar smákökusortir í desember. Fer í skötuveislu til móður minnar á Þorláksmessu því þá heldur hún upp á afmælið sitt. Þá hittumst við öll móðurfjölskyldan. Ég reyni að kíkja í bæinn á Þorlák, í Reykjavík eða Keflavík, fer reyndar eftir veðri. Svo höfum við haft þá venju að keyra út kortin sem fara til vina innanbæjar og kíkja í kaffi í leiðinni. Jólalögin fá að hljóma alla daga en svo er venjulega mikið álag í vinnnunni minni á þessum árstíma, þannig að maður fær mismikinn tíma til að undirbúnings.
Er eitthvað eftirminnilegt í huga þér frá yngri árum þínum á jólum? Já, hvað það var hrikalega erfitt að bíða eftir að mamma og pabbi kláruðu að borða. Þoldi ekki þegar pabbi fékk sér aftur á diskinn því það þýddi að biðin eftir að fá að opna pakkana, lengdist verulega. Þolinmæði hefur aldrei verið mín sterka hlið.
Hvað er í matinn á aðfangadag? Hamborgarhryggur með öllu og heimagerður vanilluís með Toblerone-sósu.
Hvenær finnst þér jólin vera komin? Þegar klukkan slær sex á aðfangadag, kirkjuklukkurnar klingja og útvarpsmessan hefst.
Hefur þú verið eða gætirðu hugsað þér að vera erlendis um jólin? Ég hef verið bæði í Noregi og á Spáni um jólin. Það var ágætt en alltaf gott að vera á Íslandi um jólin.
Áttu þér uppáhaldsjólaskraut? Já, allt það sem börnin mín hafa búið til og einnig jólakúla, sem tengdamóðir mín heitin gaf okkur fyrir nokkrum árum. Hún er perlusaumuð og gríðarlega falleg.
Hvernig verð þú jóladegi? Á jóladagsmorgun förum við á náttfötunum í jólamorgunkaffi hjá foreldrum mínum og þangað mæta einnig systkini mín með börnin sín. Um kvöldið förum við stundum í jólaboð hjá stórfjölskyldum okkar, en það er þó mismunandi á milli ára.