Jólagjafaleiðangur í Reykjanesbæ #5
Hver hefur ekki sagt oft og mörgum sinnum: „Æi, ég nenni ekki til Reykjavíkur að versla?“ Það hafa eflaust margir brunað til Reykjavíkur til þess að leita að gjöf undir jólatréð en gripið í tómt og komið til baka í heimabyggð og fundið það sem leitað var að. Í Reykjanesbæ eru margar verslanir sem bjóða upp á mikið úrval af gjafavöru fyrir unga sem aldna. Blaðamenn Víkurfrétta tóku hús á nokkrum verslunum í Reykjanesbæ og fundu jólagjafir undir 3.000 krónum og einnig vinsælustu vöru verslananna. Sólborg Guðbrandsdóttir tók meðfylgjandi myndir.
Draumaland selur fallega gjafavöru sem gaman væri að fá í jólapakkann. Verslunin er staðsett að Tjarnargötu 2 og njóta Meriaki handsápurnar mikilla vinsælda og fást þær á undir 3.000 krónur stykkið. Rosendahl vörurnar rjúka út að sögn Nönnu Soffíu Jónsdóttur, verslunareignanda Draumalands. Fallegu pipar- og saltstaukarnir frá Rosendahl eru tilvalin jólagjöf, klassísk og tímalaus hönnun.
Blómastofan Glitbrá, Hafnargötu 25, býður upp á gjafavöru á góðu verði. Glæru blómavasarnir eru smart gjöf undir jólatréð undir 3.000 krónur og veggkertastjakinn er klassísk gjöf fyrir heimilið en slíkir kertastjakar eru vinsælir um þessar mundir.
Í Kóda að Hafnargötu 15 fást fallegar vörur fyrir konur á öllum aldri. Veski, treflar, vettlingar og ýmis fatnaður fæst í Kóda og segir Kristín Kristjánsdóttir, eigandi verslunarinnar, að jólaverslunin hafi gengið vel í ár. Húfur með dúskum hafa verið vinsælar upp á síðkastið og fást þessar fallegu húfur í Kóda á undir 3.000 krónur. Samfestingar hafa selst vel og þessi vínrauði samfestingur er jólalegur og flottur.