Jólagjafaleiðangur í Reykjanesbæ #1
Hver hefur ekki sagt oft og mörgum sinnum: „Æi, ég nenni ekki til Reykjavíkur að versla?“ Það hafa eflaust margir brunað til Reykjavíkur til þess að leita að gjöf undir jólatréð en gripið í tómt og komið til baka í heimabyggð og fundið það sem leitað var að. Í Reykjanesbæ eru margar verslanir sem bjóða upp á mikið úrval af gjafavöru fyrir unga sem aldna. Blaðamenn Víkurfrétta tóku hús á nokkrum verslunum í Reykjanesbæ og fundu jólagjafir undir 3.000 krónum og einnig vinsælustu vöru verslananna. Meðfylgjandi myndir tók Sólborg Guðbrandsdóttir.
Í versluninni Lindex í Krossmóa 4 er hægt að fá ýmislegt sniðugt í jólapakkann fyrir jólin. Mjúku gjafirnar eru þó í miklum meirihluta hjá þeim. Þessar litríku og fallegu buxur og peysa fást undir 3.000 krónur í Lindex. Verslunarstjóri Lindex í Reykjanesbæ, Guðrún Árný Einarsdóttir, segir að pelsarnir séu mjög vinsælir um þessar mundir og en þessi fallegi bleiki pels fæst í Lindex, tilvalið í jólapakkann.
Hundarnir fara svo sannarlega ekki í jólaköttinn í ár en í Dýrabæ, Krossmóa 4, fást þessir sniðugu pakkar undir jólatréð fyrir ferfættlingana og eru þeir báðir undir 3.000 krónur saman. Í þeim er hundanammi, dót og alls kyns gotterí fyrir besta vin mannsins. Vinsælasta vara búðarinnar er hins vegar Barking Heads hundafóðrið.
Við Hafnargötu 34 stendur falleg verslun sem selur alls kyns fínerí fyrir unga jafnt sem aldna. Verslunin er vinsæl meðal ferðamanna en Stefanía María Aradóttir rekur SA Iceland Design og þar er hægt að kaupa fallega ullarvettlinga fyrir börn á undir 3.000 krónur. Ullarkjólarnir hennar Stefaníu njóta mikilla vinsælda og eru flottir í jólapakkann fyrir vetrarkuldann á Íslandi.