Jólabarnið varð að nýársbarni
Fyrsta barn ársins á Suðurnesjum fæddist 2. janúar á fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, 15 marka drengur og 52 sentimetrar. Foreldrar hans eru Sólrún Steinarsdóttir og Elvar Már Sigurgíslason, en þetta er þeirra fyrsta barn. Sólrún segir að hún hafi verið sett þann 19. desember en að sá stutti hafi látið bíða eftir sér: „Við vorum alveg viss um að þetta yrði jólabarn, en í staðinn varð hann nýársbarn og við erum ánægð með það,“ segir Sólrún. Elvar segir að strákurinn sem verður skírður 19. janúar sé líkur þeim báðum:„Hann er með dökka hárið hennar mömmu sinnar og nefið hans pabba síns,“ segir Elvar og brosir, en hann ætlar að nýta sér 3 mánaða fæðingarorlof og verður heima hjá konu og barni út janúar og ætlar svo að sjá til. Hinir nýbökuðu foreldrar segja að allt hafi gengið mjög vel eftir að þau komu heim af fæðingardeildinni og sá stutti sé vær og yndislegur í alla staði. Víkurfréttir óska hinum nýbökuðu foreldrum til hamingju með frumburðinn.