Jóla hvað? Ofninn fær frí heima hjá mér
Rafn Markús Vilbergsson er uppalinn í Garðinum en hefur einnig búið í Reykjavík, Englandi og í Reykjanesbæ.
Hann er 28 ára gamall menntaður íþróttafræðingur og starfar sem yfirþjáfari yngri flokka hjá Njarðvík og kennari í Njarðvíkurskóla. Einnig spilar Rafn fótbolta með Njarðvík en hann hefur leikið 180 leiki í deild og bikar með Njarðvík og Víði. Við spurðum Rafn út í hvernig hann hagar jólunum hjá sér.
Fyrstu jólaminningarnar?
Það fyrsta sem kemur í hugann eru jól heima hjá ömmu og afa í Njarðvík þar sem öll stórfjölskyldan kom saman og pakkaflóðið var það mikið að varla sást í jólatréið.
Jólahefðir hjá þér?
Fara í skötuveislu hjá tengdó á Þorlák. Á aðfangadag hefur það verið hefð í mörg ár að fara á rúntinn með pabba að heimsækja ættingja í Garðinum, dreifa pökkum og spjalla. Svo áður en farið er í jólasturtuna förum við í kirkjugarða og heilsum upp á látna ættingja.
Ertu dugleg/ur í eldhúsinu yfir hátíðarnar?
Ofninn í eldhúsinu hjá mér fær jólafrí yfir hátíðarnar þar sem mér er boðið í mat hjá ættingjum alla hátíðardagana.
Jólamyndin?
Deck the Halls með Danny DeVito.
Jólatónlistin?
Jólalög Baggalúts.
Hvar verslarðu jólagjafirnar?
Þetta árið voru nokkrar keyptar í Boston en flestar verða keyptar í Reykjavík og Reykjanesbæ.
Gefurðu mikið af jólagjöfum?
Ég gef um 15 gjafir og er einnig duglegur að þiggja gjafir.
Ertu vanafastur um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?
Já við fjölskyldan erum nokkuð vanaföst.
Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Ég hef fengið margar góðar gjafir en ísskálasettið frá Ingibjörgu systur stendur upp úr.
Hvað er í matinn á aðfangadag?
Í ár verður stórveisla hjá pabba og mömmu þar sem við systkinin komu saman ásamt mökum og börnum. Á slaginu klukkan sex undir aðfangadagsmessu í útvarpinu verður lax í forrétt, hamborgarahryggur með kóksósu og öllu tilheyrandi í aðalrétt og jólaís í eftirrétt. Pabbi sér um jólaölið þar sem hann blandar saman kóki, appelsíni og malti. Um miðnætti verður svo kíkt til tengdó sem bíður vonandi með Toblerone ís sem er í miklu uppáhaldi hjá mér.
Eftirminnilegustu jólin??
Það er erfitt að gera uppá milli jóla, í mínum huga er öll jól sem ég hef upplifað hlaðin góðum minningum. En ef ég ætti að velja ein jól eru það fyrstu jólin með með konunni minni og Helenu dóttur minni.
Hvað langar þig í jólagjöf?
Harðan pakka.