Jóla hvað? Mandarínuát og slökun
Kristín María Birgisdóttir bæjarfulltrúi og kennari í Grindavík man vel eftir jólunum árið 1990 þegar hún fékk Nintendo tölvu. Í pakkanum í ár vill hún helst sjá bækur, hlýja sokka og ilmandi kerti.
Fyrstu jólaminningarnar?
Líklega þegar jólasveinar komu með gjöf heim á aðfangadag, ég var um 4-5 ára og hljóp dauðhrædd og faldi mig. Mamma náði mér loks með herkjum fram í gang þar sem okkur bróður mínum var stillt upp í myndatöku með þeim. Skelfingarsvipurinn sást greinilega.
Jólahefðir hjá þér?
Þær eru þessar klassísku; skötuveisla hjá mömmu og pabba á Þorláksmessu fyrir stórfjölskylduna, jólakortaútburður á aðfangadag, jólabrunch sama dag, miðnæturmessa, jólaboð, mandarínuát og almenn slökun. Jú og jólaball 30. des!
Ertu dugleg í eldhúsinu yfir hátíðirnar?
Ég er dugleg að hjálpa til hjá foreldrum mínum. Ég bý ein þannig að yfirleitt býð ég mér í mat annars staðar yfir jól og aðrar hátíðir.
Jólamyndin?
Ég er engin undantekning í Christmas Vacation æðinu. Griswold-fjölskyldan er ómissandi hver jól. Mynd sem endist gríðarlega vel. Svo finnst mér Christmas Carol eftir Charles Dickens virkilega góð. Mynd með boðskap sem nauðsynlegt er að eiga.
Jólatónlistin?
Mitt uppáhald er Do they know it´s christmas? með Band Aid.
Hvar verslarðu jólagjafirnar?
Ég keypti allar jólagjafir í Glasgow í október. Fyrsta skipti sem ég er svo tímanlega. Annars hef ég reynt að versla þær í heimabyggð.....oftast eru síðustu að detta í hús á Þorláksmessu.
Gefurðu mikið af jólagjöfum?
Nei, nei, nánasta fjölskylda, þetta eru um átta gjafir.
Ertu vanaföst um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?
Við fjölskyldan reynum yfirleitt að eiga gæðastund saman, þá er spilað og spjallað. Jólaboð er líka á hverju ári. Síðan nýt ég þess að hanga á náttfötunum eins lengi og mögulegt er, narta í konfekt og kaldan hamborgarhrygg.
Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Þegar ég fékk farmiða heim yfir hátíðirnar eftir að hafa verið sjálfboðaliði á Ítalíu árið 2002. Virkilega gaman að koma heim og hitta fjölskyldu og vini eftir langa fjarveru.
Hvað er í matinn á aðfangadag?
Það er mjög basic. Reyktur hamborgarhryggur í foreldrahúsum.
Eftirminnilegustu jólin?
Jólin 1990 voru mjög eftirminnileg þegar við eldri bróðir minn fengum saman Nintendo tölvu. Sá fögnuður er til á upptöku – því miður. Super Mario Bros einkenndi þau jól.
Hvað langar þig í jólagjöf?
Úff....ég á aldrei nóg af góðum ilmandi kertum, hlýjum sokkum og góðum bókum!