Jóla hvað? Er svo mikil jólastelpa í mér
Íris Jónsdóttir, fatahönnuður og listakona, vonast til þess að allir munu eiga gleðileg jól. Besta jólagjöfin sem Íris hefur fengið var þegar hún fékk tvo páfagauka í æsku. Þeir urðu svo á endanum 13 talsins.
Fyrstu jólaminningarnar?
Yndislegar, lítil stelpa í Sandgerði með mömmu, pabba og bræðrum mínum fjórum og góða lyktin af nýju rauðu jóla-lakkskónum mínum.
Jólahefðir hjá þér?
Já, jólamaturinn alltaf sá sami og síðan er eftirrétturinn sem er jólaís, „a la amma Tobba á Borg“ snæddur heima hjá Axel bróður mínum og fjölskyldu. Svo er alltaf hittingur hjá góðum vinum okkar á jóladagskvöld.
Ertu dugleg í eldhúsinu yfir hátíðirnar?
Það fer eftir því hvort um er að ræða eldamennsku eða frágang sem ég er mjög dugleg og flink í, þ.e. fráganginum en ég er svo vel gift, þ.e.a.s. Gylfi maðurinn minn er listakokkur og sér hann meira og minna um jólamatinn.
Uppáhalds jólamyndin?
Er svo mikil jólastelpa þannig að allt jóla eitthvað finnst mér skemmtilegt en ef ég á að nefna einhverja eina þá dettur mér í hug „Love Actually“.
Uppáhalds jólatónlistin?
Finnst öll jólatónlist skemmtileg, en mamma og pabbi hlustuðu mikið á Bing Crosby og Frank Sinatra t.d. lagið White Christmas og á það sérstakan sess í hjarta mínu, vekur upp ljúfar minningar.
Hvar verslarðu jólagjafirnar?
Ég versla þær hér heima í Reykjanesbæ og í Reykjavíkinni.
Gefurðu mikið af jólagjöfum?
Ég gef mínum nánustu sem eru jú þó nokkrir, það er svo gaman að gefa.
Ertu vanaföst um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?
Já, við keyrum út nokkra jólapakka og jólakort og síðan er farið með fjölskyldunni út í kirkjugarðana. Þegar þangað er komið tendrum við ljós hjá ástvinum okkar sem hvíla þar og rifjum um góðar minningar.
Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Ef ég væri 9 ára þá myndi ég eflaust segja tveir páfagaukar sem ég fékk frá mömmu og pabba sem enduðu síðan í 13 páfagaukum því ég prófaði að setja varpkassa sem lukkaðist svona líka ljómandi vel mömmu til mikillar armæðu hehehe…en í dag þá er besta jólagjöfin mín sú að hafa mína nánustu hjá mér á jólunum.
Hvað langar þig í jólagjöf?
Að allir eigi gleðileg jól.
Hvað er í matinn á aðfangadag?
Svínahamborgarhryggur „a la Gylfi“, möndlugrautur eins og mamma og tengdamamma gerðu alltaf og ísinn hjá Axel bró.
Eftirminnilegustu jólin?
Erfitt að velja, hef verið svo lánsöm að hafa alltaf átt yndisleg og gleðileg jól sem ég óska öllum og farsældar á nýju ári.