Jógaæði í Noregi!
- sendibréf frá Mörtu Eiríks
Sæl veriði öllsömul heima á Íslandinu góða.
Þegar ritstjóri Víkurfrétta falaðist eftir fréttum af mér, fyrir rúmum mánuði síðan, þá var ég ekki alveg viss um að ég vildi senda af mér fréttir heim. Ekki það að það væri ekkert nýtt að frétta af okkur Íslendingunum hérna í Nordfjordeid, heldur fannst mér svo stutt síðan ég var í næstum öllum tölublöðum Víkurfrétta fyrir jól, að ég hélt að fólk nennti nú ekki að lesa meira um mig í bili. Þegar ég sagði ritstjóranum þetta viðhorf mitt, þá puffaði hann bara á mig og hvatti mig til að senda sér fréttir, því lesendur hefðu gaman af því að lesa hvernig gengi hjá landanum erlendis. Svo hér er ég sest við tölvuna mína og ætla að senda ykkur lesendum Víkurfrétta sendibréf frá Norge.
Fyrst vil ég nú segja eins og er, að mér fannst ofsalega gaman að koma heim til Íslands um jólin og kynna bókina mína Mei mí beibísitt? Móttökurnar voru svo innilegar og góðar að ég lifði lengi á því að hafa hitt allt þetta góða fólk heima. Svo er líka bara svo gott að tilheyra fólkinu heima, því léttleikinn, krafturinn og gleðin sem einkennir Íslendinga er smitandi. Það er ekki eins að umgangast útlendinga þó að Norðmenn séu gott fólk og taka okkur Íslendingunum mjög vel. Manni vantar samt alltaf að átta sig alveg á þjóðarsálinni hérna og húmorinn þeirra fer stundum framhjá manni. Samt er léttara að skilja norskuna en td. dönsku.
Já húmor skiptir mig miklu máli og ég gái alltaf fyrst að því hvort fólk hafi kímnigáfu sem ég er að kynnast því í gegnum hana gengur allt svo miklu betur. Það eru næstum tvö ár síðan við fluttum hingað til Noregs og eigum núna eitt ár eftir af starfssamningnum sem rafvirkjameistarinn, Friðrik Þór Friðriksson, maðurinn minn gerði við rafverktakafyrirtæki hérna í bænum okkar Nordfjordeid. Hann er mjög ánægður í starfi hérna og okkur líkar vel en ég finn að mig langar stundum heim til að halda námskeið mín frekar þar.
Jóganámskeið slá í gegn!
Já, ég er byrjuð að halda aftur námskeið og ég sem hélt að ég væri hætt því en svona er þetta með mann, einu sinni kennari, ávallt kennari! Ég er meira að segja búin að stofna fyrirtæki í kringum námskeiðin mín hérna, sem aðallega snúast um hefðbundið jóga og dansjóga.
Þetta byrjaði nú allt voða saklaust því á meðan ég var heima á Íslandi um jólin ákvað ég að bjóða konum þar upp á létt töfranámskeið til að við gætum galdrað okkur inn í nýtt og skemmtilegt ár. Og viti menn konurnar heima fjölmenntu svo á milli jóla og nýárs á þetta töfranámskeið mitt á Heilsuhótelinu Ásbrú, meira að segja í brjáluðu vetrarveðri. Við íslensku konurnar kveiktum varðeld til þess að hreinsa burt gamalt á þessu fjögurra tíma námskeiði, notuðum svo gyðjudans og hugleiðslu til að kalla fram nýja góða tíma. Ég fann þá að þetta vildi ég einnig bjóða konum upp á í Noregi. Svo þegar ég snéri aftur til Noregs á nýju ári, tók ég á leigu sal og auglýsti svona námskeið sem fór hægt af stað en svo ákvað ég að bjóða upp á venjulegar jógaæfingar og dansjóga og þá fylltist allt. Ég varð himinlifandi yfir móttökunum og vissi að þetta átti ég að halda áfram með að gera hérna úti.
Nú hafa yfir hundrað norskar konur komið á námskeið hjá mér frá áramótum en ég byrjaði með þetta um miðjan janúar. Ég hugsaði með mér að ef ég gæti talað mátulega vel norskuna og sýnt æfingarnar einnig með líkamanum þá gæti ég nú bara slegið til og boðið upp á svona námskeið í Noregi. Hvers vegna ekki? Allt að vinna, engu að tapa. Eftir rúma tvo mánuði sá ég að ég var að hafa af þessu góðar tekjur, svo ég ákvað að stofna fyrirtæki, hafa allt löglegt svo ég gæti greitt skatta af þessum tekjum mínum fyrir árið 2013. Heiðarleikinn er nefnilega alltaf bestur en það vitum við Íslendingar manna best!
Ég vildi svo hætta með jóganámskeiðin mín um miðjan maí og fara í sumarfrí en þá fannst sumum konum það ómögulegt. Svo ég ákvað að bjóða upp á fleiri tegundir af jógatímum og vera með þá jógatíma fram í miðjan júní. Nú geta þær ekki bara komið í venjulegt jóga og dansjóga, heldur einnig morgunjóga hálfsjö á morgnana, þar sem ég blanda saman hefðbundnu jóga, dansjóga og hláturjóga, kem þeim í stuð fyrir daginn sinn. Ég er einnig með jóga úti í fersku lofti til að höfða til þeirra sem elska að vera úti á þessum árstíma.
Sjálfstyrking kvenna
Í apríllok ákvað ég að bjóða konunum upp á vorhátíð sem voru á námskeiði hjá mér. Þetta fór fram á hótelinu hér í bæ en hótelstýran var svo góð að lána okkur flottan stóran sal án endurgjalds fyrir viðburðinn og bauð upp á hlaðborð fyrir gestina. Konurnar mættu á þessa vorhátíð á sunnudagsmorgni klukkan ellefu og sáu dans sem ég og dansjógakonurnar mínar höfðum æft. Svo fórum við og allar konurnar í salnum í hláturjóga æfingar. Þar á eftir var hádegishlaðborð. Dagskráin endaði á flottri tískusýningu sem jógakonur sýndu en tískuvöruverslun hér í bæ var í samstarfi með mér varðandi það. Herlegheitunum lauk svo klukkan tvö.
Það var meiriháttar að sjá hvað konurnar voru ánægðar með þennan viðburð og enn skemmtilegra að sjá sjálfstraust kvennanna vaxa sem sýndu dans og tískufatnað. Þær höfðu aldrei gert svona áður og voru mjög stoltar og ánægðar með sig. Það var gefandi fyrir mig að sjá upplitið á þeim.
Mikil náttúrufegurð í Noregi
Marta með orkuskart til sölu í Noregi.
Norðmenn eru ótrúlega duglegir að ganga úti og hérna í bænum okkar sér maður á hverjum degi fullt af fólki labba framhjá húsinu okkar á leið inn í skóginn hérna og upp á fjöllin fyrir ofan okkur. Þeir virðast líka margir eiga góðar göngugræjur.
Ég og maðurinn minn höfum stundum gælt við þá hugsun að fara inn í skóginn þegar það er orðið dimmt til að gá hvort við rekumst á einhver dýr en hérna eru alls konar dýr auðvitað. Hjörtur, refur, íkorni, litlar slöngur, fjallaköttur, jarfur og fleira leynist hérna en við höfum ekki farið ennþá. Gerum það kannski í sumar á bjartri sumarnóttu? Það er notalegt að ganga í skóginum, sjá öll fallegu háu trén og heyra í fuglunum syngja.
Eitt kvöldið vorum við hjónin að ganga í skóginum rétt áður en myrkur skall á og rákumst þá á Norðmann með höfuðljós á enninu koma gangandi upp skógarstíginn en hann var á leið inn í skóginn og upp á fjallið fyrir ofan. Hann stoppaði og spjallaði við okkur en þeir eru voða kumpánlegir hérna Norsararnir og yfirleitt ekkert feimnir við að taka upp spjall. Hann sagði okkur það að hans uppáhaldstími í skóginum væri í rökkrinu og þá færi hann alla leið upp á fjall frá skógarstígnum. Ég varð nú bara hrædd við tilhugsunina og spurði hvort hann væri ekkert hræddur við að hitta öll dýrin sem kæmu fram þegar rökkvaði en nei, hann sagðist aldrei rekast á nein dýr. Þau hefðu það góða heyrn að þau forðuðu sér þegar þau heyrðu í honum koma. Svo hann var alltaf bara einn á gangi og kunni því vel. Ja hérna mig!
Hérna eru bjartar sumarnætur eins og heima á Íslandi. Hitastigið er þó aðeins hærra þegar sólin skín og þá förum við Íslendingarnir í sólbað náttúrulega en það gera Norðmenn einnig. Þeir elska sólina og ferðast mikið til Spánar á vorin til að lengja sumarið sitt. Við búum á Vestlandinu eins og það kallast en þetta svæði er þekkt fyrir rigningu enda mjög grænt allt hérna og fallegt. Við búum rétt hjá Geirangursfirði en sá fjörður er á heimsminjaskrá vegna náttúrufegurðar. Þangað höfum við siglt og heilluðumst af risaháum fjöllum þar og sögum af lífsbaráttu fólksins sem bjó í firðinum áður. Það var ótrúlegt að sjá hversu bratt fólkið reisti bæina sína þar í fjallshlíðunum en nú eru allir þessir bæir komnir í eyði.
Kóngar og víkingagrafir
Saga hefur alltaf heillað mig og í bænum okkar eru víkingagrafir og mikil saga en hér hefur verið búið frá árinu fjögurhundruð eða lengur. Hérna ríktu margir kóngar á öldum áður eða allt þar til 870 þegar Auðbjörn kóngur sem ríkti í þessum bæ var drepinn og fleiri kóngar og drottningar voru drepin af fjörðunum hérna. Haraldur hárfagri hreinsaði öll kóngsríki burt því hann vildi sölsa undir sig Noreg á þessum tíma og því fór sem fór. Íslendingar sigldu árið 874 frá nærliggjandi svæðum hérna og kannski meira að segja frá þessum bæ sem við búum í? Gröf kóngs Auðbjörns er hérna en hann var heygður nálægt aðalgötu bæjarins. Risastór hóll eða haugur er til merkis um það en gröfin hans var opnuð um aldamótin 1900 og fundust þar ýmsar minjar sem nú eru á safni í Bergen. Skipið hans sem var allt brennt á sínum tíma, var meira en sex metrar á lengd. Hver veit nema maður grufli aðeins í þessari sögu og skrifi um hana einn daginn?
Skrifar fleiri bækur
Ég nota tímann minn vel hérna í Noregi þegar ég er ekki að halda námskeið og skrifa bækur. Þær eru þrjár til fjórar í burðarliðnum núna hjá mér, ein á ensku og hinar á íslensku. Mér finnst gaman að skrifa og fæ útrás fyrir sköpunarkraftinn minn í gegnum skriftir.
Ein þessara bóka er vinnubók sem ég er að vinna að fyrir Mei mí beibísitt? bókina mína. Ég ákvað að fara út í það þegar ég áttaði mig á því að þessi bók hefur sögulegt gildi fyrir komandi kynslóðir en það gerði ég mér ljóst þegar grunnskólanemandi skrifaði ritgerð um hana í skólanum sínum. Honum fannst hún skemmtileg en sagðist ekki hafa geta lifað á þessum tímum þegar engar tölvur voru til eða farsímar.
Bókin Mei mi beibísitt? fjallar mest um gamla Ísland séð með augum barns og ma. um það hvernig börn notuðu hugmyndaflug sitt til þess að búa sér til dægrastyttingu á árum áður. Einn lesandi um þrítugt sagði mér að honum fannst skrýtið að lesa um sparnað fólks á þessum tíma. Það var alveg nýtt fyrir honum að fólk safnaði peningum inn á bankabók áður en það keypti sér eitthvað en keypti það ekki á afborgunum strax, keypti fyrst og borgaði seinna.
Þegar ég gerði mér grein fyrir þessu þá langaði mig að koma bókinni minni áfram til ungra lesenda. Draumur minn er að grunnskólar taki upp bókina td. til lesturs í íslenskukennslu og verkefnabókin sem ég er að vinna að núna getur hjálpað kennurum að opna á fleiri hugmyndir fyrir skapandi kennslu með nemendum. Vinnubók þessi mun styðja við lifandi kennslu um gamla tíma á Íslandi sem ekki má gleyma, námsefni sem getur höfðað til áhuga nemenda og virkni þeirra, er markmið mitt með vinnubókinni.
Annars er gaman að segja frá því að Norðmenn hafa mikinn áhuga fyrir bókunum mínum og byrjað er að þýða þær yfir á norsku hérna. Ein norsk kona sem elskar Ísland keypti af mér íslenskt eintak, sagðist ekki geta beðið eftir þýðingu og er farin að lesa hana með norskum manninum sínum. Hún sagðist skilja margt og ef íslenska væri gammel norsk, eins og talið er, þá sagðist hún ætla að lesa hana svona fyrst á gamla móðurmáli Norðmanna.
Norðmenn vilja til Íslands!
Já Norðmennirnir sem við höfum hitt eru mjög spenntir fyrir Íslandi og vilja að ég kenni þeim íslensku og fari svo með þá til Íslands næsta sumar í ferðalag um slóðir sem venjulegir túristar sjá ekki. Þeir vilja sjá eitthvað öðruvísi og jafnvel blanda jóga saman við dvölina. Svo nú eru pælingar í gangi hjá mér varðandi ferðalag með Norðmenn heim til Íslands næsta sumar og íslenskukennslu. Ætli ég blandi ekki norrænni goðafræði og sögunni af fólksflutningunum héðan frá Noregi 874?
Það er margt sem ég er að spá núna. Í haust hef ég verið beðin um að kenna jóga í framhaldsskólanum hérna á mánaðarlöngu námskeiði fyrir nemendur sem hafa óskað eftir því í vali. Ég er auðvitað til í það, alltaf gaman að fá nýjar áskoranir. En í sumar ætla ég að selja Orkuskart, kristallaskartið sem við hjónakornin erum að dúlla okkur við að búa til í frítímanum. Við erum einnig með íslenskt hraun og íslenska steina í hálsmeni. Norðmenn eru hrifnir af þessu hjá okkur og því viljum við halda áfram að selja þetta skart en við gerðum það einnig síðasta sumar á Sommer Shopping viðburði sem fer fram hérna alla laugardaga í júní og júlí. Þetta er sniðug hátíð þar sem verslunareigendur taka sig til og auglýsa bæinn í næstu bæjum til að fá meiri verslun til sín yfir sumarmánuðina. Þá eru líka einhverjir bæjarbúar einsog við, sem stilla sér upp í göngugötunni og selja heimalagaðan arabískan mat, handverk og svona. Þetta lífgar upp á bæjarstemninguna. Síðastliðið sumar var einnig víkingaleiksýning áhugafólks alla laugardaga sem laðaði gesti til bæjarins. Kannski gæti svona Sumarsjopping hugmynd einnig virkað vel heima í litlu bæjunum til að laða að gesti á sumrin? Maður veit aldrei fyrr en maður prófar! Það er alla vega mitt lífsmottó.Látum þetta duga í bili, ég vona að þið hafið haft gaman af lestrinum.
Óska ykkur alls hins besta.
Gleðilegt sumar!
Bestu kveðjur frá Norge,
Marta.
Facebook síða:
MartaEiríksdóttir-TheDancingEaglewomanfromIceland!