Jóga heima í stofu til styrktar Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
Systurnar Elín Rós og Ljósbrá Mist Bjarnadætur ætla að bjóða upp á rafrænt námskeið í jóga og styrk heima í stofu og ætla að láta 60% af innkomunni renna til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.
„HSS er ekki tækjum og tólum búið til að geta sinnt COVID-19 sjúklingum og því höfum við systur ákveðið að leggja okkar af mörkum. 60% af innkomu okkar af þessu námskeiði mun fara í það að útbúa herbergi á HSS fyrir COVID-19 sjúklinga. Í þetta herbergi þarf monitora, bþr mæla og allt til alls. Það er nánast ómögulegt fyrir HSS að halda úti þeirri þjónustu sem nú er gert án styrkja og því finnst okkur það vera samfélagsleg skylda okkar að hjálpa til eins og við mögulega getum. Við þurfum á ykkur að halda svo þetta geti orðið að veruleika og vonandi að sem flest ykkar séuð tilbúin að leggja þessu verkefni lið,“ segja þær Elín Rós og Ljósbrá Mist á Facebook-síðu sinni þar sem þær auglýsa námskeiðið en það heitir Styrkur og Jóga heima í stofu.
Þær hafa verið á fullu að taka upp efni á námskeiðin en alls verða tólf tímar settir inn á lokaða grúbbu á Facebook. Námskeiðið kostar 2500 kr. en þátttakendur mega greiða hærra ef þeir vilja en eins og fyrr segir mun 60% af tekjunum fara til HSS vegna COVID-19.