Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Íþrótt sem allir hafa gaman af
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
þriðjudaginn 6. september 2022 kl. 13:00

Íþrótt sem allir hafa gaman af

Frisbígolf, eða folf, er íþrótt sem hefur notið mikilla vinsælda að undanförnu. Folf fer fram á svipaðan hátt og venjulegt golf. Leikmenn notast við svifdiska og reynt er að ljúka hverri braut í sem fæstum köstum. Freyr Marínó Valgarðsson er einn af þeim sem byrjuðu að æfa folf á síðustu árum en hann hefur tekið þátt í nokkrum mótum. Hann segir íþróttina vera fyrir fólk á öllum aldri. „Ég fer með börnin í þetta, ég fer með vinunum og ég fer með foreldrum mínum og allir hafa mjög gaman af þessu,“ segir Freyr.

Freyr er smiður og tveggja barna faðir. Hann flutti til Reykjanesbæjar fyrir nokkrum árum og líkar vel. Í frítíma hans finnst honum fátt skemmtilegra en að spila folf með vinunum.

Hvers vegna byrjaðir þú að spila folf?

„Ég byrjaði fyrir svona þremur árum síðan, þá fór ég með félaga mínum að prófa þetta og ég sá það strax að ég væri með flott flug á diskunum og þá kviknaði áhuginn um leið. Ég sá það að ef ég myndi æfa mig yrði ég ágætlega góður. Eftir það byrjaði ég bara á fullu í þessu.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Hvað hefur þú tekið þátt í mörgum mótum?

„Ég held ég hafi tekið samtals þátt í fjórum mótum. Ég er að fara að taka þátt í Ljósanæturmótinu núna um helgina (athugasemd blaðamanns: viðtalið var tekið fyrir Ljósanæturhelgina), ég hef áður tekið þátt í því móti. Ég hef líka tekið þátt í þriðjudagsdeildinni í Reykjavík, þau standa svona helst upp úr.“

Hver er þinn styrkleiki í þessu sporti?

„Ég myndi segja að mín sterkasta hlið séu löngu köstin sem og styttri köstin frá u.þ.b. 30 metrunum. Ég þarf aðeins að æfa mig betur í pútternum.“

Hvað er það skemmtilegasta við folf?

„Aðallega þegar maður nær flottu flugi á diskunum og nær að kasta langt. Svo er rosalega gaman að kíkja út með strákunum á kvöldin og kasta. Mótin eru hrikalega skemmtileg og útiveran alltaf góð.“

Hver er skemmtilegasti völlurinn að þínu mati?

„Ég myndi segja völlurinn í Njarðvík og völlurinn í Guðmundarlundi í Kópavogi. Völlurinn hjá tjaldsvæðinu á Akureyri er líka mjög skemmtilegur.“

Myndir þú segja að þetta væri sport fyrir hvern sem er?

„Ég fer með börnin í þetta, ég fer með vinunum og ég fer með foreldrum mínum og allir hafa mjög gaman af þessu. Við vinirnir förum að æfa okkur svona tvisvar til þrisvar í viku og það er gaman að segja frá því að tveir félagar mínir, sem eru nýlega byrjaðir í þessu, ætla líka að taka þátt í mótinu um helgina.“

Freyr ásamt konunni sinni

Hvaða ráð hefur þú fyrir einhvern sem er að byrja í folfi?

„Það er mikilvægt að byrjendur í folfi velji réttan disk. Því hver folfdiskur hefur sinn eiginleika og talnaröðin á disknum gefur til kynna hvernig og í hvaða átt diskurinn flýgur. Ég mæli þess vegna með því að byrjendur velji sér disk sem flokkast undir „understable“ en það eru diskar sem hafa mínus fyrir framan þriðju töluna á disknum.“

Áttu einhverjar eftirminnileg atvik frá folfhring?

„Það koma nokkur eftirminnileg atvik upp í hugann. Eitt þeirra er þegar ég spilaði einn minn besta hring í Njarðvíkurskógi þar sem ég fékk svo kallaðan fugl á fyrstu tíu körfurnar og endaði hringinn á -13. Annað eftirminnilegt atvik var var þegar folfdiskurinn lenti upp í tré og ég ætlaði að losa hann með því að kasta öðrum disk í hann en endaði með tvo fasta diska uppi í tré og því var ekkert annað í stöðunni en að príla upp um fjóra metra til að losa þá báða.“