Íslenski dansflokkurinn sýnir Transaquania - Out of the blue
Alþjóðlega þekktir listamenn og dansarar ÍD koma saman og skapa einstakan dans og listviðburð þar sem leikhúsið er Bláa lónið sjálft.
Íslenski dansflokkurinn og Bláa Lónið kynna Transaquania – Out of the blue. Alþjóðlega þekktir listamenn, koma saman ásamt dönsurum flokksins og skapa einstakan dans og listviðburð sem fer fram ofan í Bláa lóninu á síðasta vetrardag, þann 22. apríl næstkomandi.
Aðeins þetta eina kvöld færa listamennirnir Bláa lónið á annað tilverustig og skapa heim þar sem náttúran, listin og maðurinn sameinast í einstakri upplifun. Leikhús kvöldsins er Bláa lónið sjálft þar sem gestir taka sér sæti í heitu lóninu og njóta sýningarinnar í einni af bestu heilsulindum heims
Höfundar verksins hafa öll skapað sér nafn sem listamenn á alþjóðlegum vettvangi en þetta eru dansararnir Erna Ómarsdóttir og Damien Jalet ásamt listakonunni Gabríellu Friðriksdóttur. Frumsamin tónlist við verkið er eftir reykvísk-ástralska tónskáldið Ben Frost og gítar- og bassaleikarann Valdimar Jóhansson. Innblásturinn í verkið sækja listamennirnir í uppruna lónsins og að þar finnist þörungar sem endurspegla árdaga plöntulífs á jörðinni og þróun lífs. Hugmyndin að baki verkinu er að í hinum silkikennda bláma lónsins kviknar líf. Á töfrandi hátt birtast áhorfandanum afkvæmi hinnar dulúðlegu alkemíu lónsins og í ljósaskiptunum tekur þróunarsaga þessa nýja og óræða lífheims á sig ægifagrar en um leið ógnvekjandi myndir.
Þetta verður einstakt kvöld í lok þessa ótrúlega íslenska vetrar. Að lokinni sýningu verður vetur kvaddur og sumri fagnað í Lava sal Bláa lónsins og allir stíga dans saman.
Aðeins þessi eina sýning, miðvikudaginn 22. Apríl - miðasala í síma 568 8000 eða á www.id.is
Sætaferðir verða í boði með Kynnisferðum – bókanir á www.re.is