Innistæða: verk í eigu Landsbankans í Listasafni Reykjanesbæjar
Sýningin Innistæða, verk í eigu Landsbankans, verður opnuð í Listasafni Reykjanesbæjar föstudaginn 23. október kl. 18.00.
Á sýningunni má sjá 30 málverk frá tímabilinu 1900-1990 eftir ýmsa helstu listamenn þjóðarinnar og tilraun gerð til að rekja íslenska listasögu með hjálp þessara verka.
Sýningin hefur verið í undirbúningi í tvö ár og var alltaf hugsuð sem sérstök skólasýning en Listasafn Reykjanesbæjar er eina listasafnið á Suðurnesjum og hefur þar af leiðandi ýmsum skyldum að gegna auk hefðbundinnar safnastarfsemi. Í stofnskrá safnsins er t.d. mikið gert úr menntunarhlutverki safnsins og sérstaklega tekið fram að því sé ætlað að efla þekkingu og áhuga á myndlist. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson.