Influensa hrjáir Suðurnesjamenn
Það hefur vafalaust ekki farið fram hjá neinum að skæður influensufaraldur gengur hér núna. Urðu menn varir við þetta upp úr mánaðarmótum jan.-feb.. Einkenni eru hár hiti sem kemur skyndilega oft með kuldahrolli, höfuðverk, hóstakjöltri, hálssærindum, beinverkjum og oft niðurgangur, kviðverkir og uppköst. Þessi influensa leggst fyrst og fremst á börn undir 10 ára aldri og er mjög smitandi. Ástæðan fyrir aldursskiptingunni er sú að hún gekk 1991 og eru þeir eldri því margir með ónæmi fyrir þessum vírus.Jafnframt gengur streptokokka hálsbólga sem er bakteríusjúkdómur en ekki vírus eins og influensan. Einkenni þar eru hár hiti, höfuðverkur og beinverkir en fyrst og fremst mikil særindi í hálsi og erfitt að kyngja. Hafi menn mjög slæm einkenni frá hálsi er full ástæða til að láta líta á sig, þar sem meðhöndlunar er þörf í þesum tilvikum. Við influensu er ráðlagt hitastillandi, kæling með að fækka fötum, (hafa smábörn á bleyjunni), og bað ef með þarf. Verstu einkennin ganga yfirleitt yfir á 3-4 dögum en fólk jafnar sig að meðaltali á um 1 viku. Ekki fara of snemma af stað í skóla eða vinnu og vera hitalaus í 1-2 sólarhringa áður. Versni fólki aftur ber að leita læknis vegna hugsanlegra fylgikvilla. Athugið að hiti útilokar EKKI heimsókn á heilsugæslustöð. Engin heilahimnubólga hefur greinst hér á Suðurnesjum okkur vitanlega og enginn faraldur í gangi.Álagið á heilsugæsluna hefur verið mikið eins og gefur að skilja að undanförnu og höfum verið að sinna um 200 manns að jafnaði á sólarhring. Vil ég beina þeim tilmælum til fólks að leita ekki til heilsugæslunnar nema nauðsyn beri til næstu 2-3 vikurnar vegna þessa. Neyðarvakt er allan sólarhringin en fólk er beðið um að leita hingað að degi til ef unnt er vegna álagsins á starfsfólk kvöld og nætur. Ennfremur er öll rannsóknaraðstaða opin á daginn ef á þarf að halda og sömuleiðis apótekin. Sýnum biðlund í afgreiðslunni og á biðstofunni.Gera má ráð fyrir því að influensan sé komin yfir hámarkið nú og hverfi að 2-3 vikum liðnum.Kristmundur Ásmundssonyfirlæknir