Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Iðnaðarmenn framtíðarinnar verðlaunaðir
Mánudagur 21. apríl 2008 kl. 10:25

Iðnaðarmenn framtíðarinnar verðlaunaðir

Verðlaun voru afhent á Íslandsmóti iðngreina sem lauk í gömlu Laugardalshöllinni síðdegis í dag, laugardag. Sigurvegari í málmsuðu var Jevgenis Gujls, í trésmíði Ásgeir Arnór Stefánsson frá Iðnskólanum í Reykjavík, í pípulögn Kristófer Þorgeirsson frá Iðnskólanum í Hafnarfirði, í bifvélavirkjun Birkir Sigursveinsson, í bílamálun Ásbjörn Matti Birgisson, í bifreiðasmíði Reynir Harðarson, í múrverki Kristþór Ragnarsson frá Iðnskólanum í Reykjavík, í málaraiðn Gunnar Guðjónsson frá Iðnskólanum í Reykjavík, í dúklagningum Gústaf Benedikt Grönvold frá Iðnskólanum í Reykjavík, í hársnyrtingu Heiðrún Pálsdóttir frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja, í grafískri miðlun Jóhann Geir Úlfarsson, nemi hjá Expo, í ljósmyndun Arnar Már H. Guðmundsson frá Iðnskólanum í Reykjavík og í rafvirkjun Gunnar Þórbergur Harðarson frá Iðnskólanum í Reykjavík.

Verðlaunin afhenti Árni Már Heimisson, sem var Íslandsmeistari og Norðurlandameistari í pípulögnum 2007 og tók þátt í World Skills 2007, Heimsmóti iðngreina, í Japan fyrir Íslands hönd, fyrstur Íslendinga til að taka þátt í því móti.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Markmið Íslandsmóts iðngreina, sem Iðnmennt stendur fyrir, er að vekja athygli á iðn- og starfsmenntun, kynna almenningi iðngreinar – ekki síst ungu fólki – og vekja athygli á þeim tækifærum sem felast í námi og starfi í iðngreinum. Alls voru á mótinu fulltrúar um 20 iðn- og starfsgreina, en auk greinanna sem keppt var í voru kynningar á nokkrum greinum, auk þess sem iðn- og verkmenntaskólar landsins og Samband íslenskra framhaldsskólanema kynntu starfsemi sína. Íslandsmót iðngreina er undanfari og forkeppni einstakra keppnisgreina fyrir þátttöku í Euro Skills og World Skills sem er alþjóðleg keppni iðngreina. Meira var lagt í keppnisgreinarnar nú en áður og viðfangsefnin í flestum tilvikum veigameiri og meira krefjandi. Markmiðið með breyttu fyrirkomulagi er m.a. að auka þátttöku atvinnulífsins í mótinu og efla tengslin milli þess og iðnskólanna.

Líkt og undanfarin ár sá Iðnmennt um almennan undirbúning og skipulagningu mótsins en að þessu sinni sáu AP almannatengsl um kynningarmál og framkvæmd viðburðarins. Að skipulagningu keppnisgreina komu Félag hársnyrtisveina, Félag íslenskra snyrtifræðinga, Félag pípulagningameistara, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Rafiðnaðarsamband Íslands og IÐAN – fræðslusetur. Aðalbakhjarlar mótsins voru Samtök iðnaðarins og menntamálaráðuneytið. Mótið í ár var haldið í tengslum við sýninguna Verk og vit 2008.


Mynd: Verðlaunahafarnir Gunnar Guðjónsson (málaraiðn), Jóhann Geir Úlfarsson (grafísk miðlun), Arnar Már H. Guðmundsson (ljósmyndun), Jevgenis Gujls (málmsuða), Ásgeir Arnór Stefánsson (trésmíði). Auk þeirra fengu verðlaun Kristófer Þorgeirsson (pípulögn),
Birkir Sigursveinsson (bifvélavirkjun), Ásbjörn Matti Birgisson (bílamálun), Reynir Harðarson (bifreiðasmíði), Kristþór Ragnarsson (múrverk), Gústaf Benedikt Grönvold (dúklagningar), Heiðrún Pálsdóttir (hársnyrting), Gunnar Þórbergur Harðarson (rafvirkjun).