Iðandi mannlíf og menning
Að venju er mikið af myndlistarsýningum í boði á Ljósanótt og opna þær flestar í kvöld. Listatorgið neðst við Hafnargötu verður að venju iðandi af mannlífi og menningu á Ljósanótt þar sem fjöldinn allur af listafólki sýnir verk sín.
Eiríkur Árni Sigtryggsson opnar málverkasýningu í Bíósal Duushúsa kl. 18. Á Svarta Lofti, efri hæð Svarta Pakkhússins verður sýningin „Órói" með þátttöku fimm listakvenna og hið góðkunna Breiðbands. Sýningin opnar kl. 20 í kvöld.
Rúna Hans og Sigurbjörn Jónsson opna samsýningu í galleríi Innrömmunar Suðurnesja kl. 19 í kvöld
og kl. 17 opnar Ljósop, félaga áhugaljósmyndara á Suðurnesjum, ljósmyndasýningu í Kjarna, svo nokkuð sé nefnt af þeim fjölmörgu listviðburðum sem í boði verða. Auk þess opnaði fjöldi myndlistarsýninga í fyrirtækjum.
Dagskrárblað Ljósanætur kom út í dag með Víkurfréttum. Þar getur fólk kynnt sér dagskrárliði nánar og víst er að nóg er í boði.
Mynd/elg: Frá setningu Ljósanætur í dag.