Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Íbúð kanans til sýnis í dag og á morgun
Sýningin er í þessu húsi við Grænásbraut 607 á Ásbrú. Næsta hús við Offiseraklúbbinn.
Laugardagur 11. maí 2013 kl. 12:31

Íbúð kanans til sýnis í dag og á morgun

Sýningin Íbúð kanans, lífið á vellinum verður opin nú um helgina, 11. og 12. maí frá kl. 13:00 - 17:00. Sýninin er að Grænásbraut 607, sem er íbúðarhús í næsta nágrenni Offiseraklúbbsins.

Sýningin hvetur til samtals um hálfrar aldar sögu varnarliðs á Íslandi.

Segja má að Bandaríkjamenn, hermenn og borgarar sem störfuðu á varnarstöðinni í Keflavík hafi verið hluti af daglegu lífi Suðurnesjamanna óslitið í hálfa öld. Í september 2006 lauk þeirri sögu er síðasti hermaðurinn fór af landi brott en talið er að alls hafi rúmlega tvö hundruð þúsund Bandaríkjamenn starfað eða dvalið hér á landi á vegum varnarliðsins frá upphafi. Þá hafa þúsundir Íslendinga komið að rekstrinum með einum eða öðrum hætti.

Markmið sýningarinnar er að gefa innsýn í hversdagslíf bandarískra hermanna á Íslandi og skoða jafnframt hvort og hvaða áhrif þeir höfðu á menningu þeirra sem bjuggu hinum megin við hliðið, og öfugt. Sýningunni er jafnframt ætlað að varpa fram nýrri sýn á herstöðina sem oft hefur verið neikvæð og pólitísk. Hér er sjónum beint að hinu hversdagslega og því persónulega, að fólkinu sem þar bjó og samskipti þeirra skoðuð sem og menningarleg áhrif á báða bóga.

Þetta er vinsamlega snertið sýning. Gestir eru hvattir til þess að miðla sinni reynslu og sögu og geta þeir skráð hana í gestabók á staðnum. Þá verður hægt að gefa muni til sýningarinnar og verður hún uppfærð eftir því sem ábendingar berast frá gestum.

Sýningarstjóri er Dagný Gísladóttir og er sýningin hluti af mastersverkefni í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Lítið sýnishorn úr íbúð kanans. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson