Í eldhúsinu: Þarf að leggja skóna á hilluna til þess að verða betri kokkur
Freyr Brynjarsson getur ekki með góðri samvisku sagt að hann sé duglegur í eldhúsinu. Hann er mikið á æfingum um kvöldmatarleytið en hann æfir handbolta með Haukum. „Það hefur ekki mikið reynt á hæfileika mína og dugnað í eldhúsinu ennþá, kannski þegar ég legg handboltaskóna á hilluna, hver veit,“ segir Freyr léttur í bragði. Freyr er tiltölulega nýfluttur heim í Njarðvíkina eftir að hafa alið manninn aðallega í Kópavogi. „Ég flutti í bæinn þegar ég var 5 ára og rataði ekki til baka fyrr en árið 2007 en ég var alltaf með annan fótinn hér fyrir sunnan þegar ég var ungur þar sem föðurfjölskyldan átti heima hér og svo átti ég góða vini hér í Njarðvík.“ Freyr vinnur í Akurskóla í Innri-Njarðvík og kennir þar öllum bekkjum íþróttir.
Hann hefur undanfarin ár spilað handbolta með Haukum og segir það hafa verið frábæran tíma. „Það er mitt aðaláhugamál en nú fer að líða að því að ég leggi skóna á hilluna og því þarf ég að fara að finna mér nýtt áhugamál sem tekur kannski ekki svona svakalega mikinn tíma frá fjölskyldunni og eldamennskunni.“
„Þegar ég elda þá er það yfirleitt eitthvað fljótlegt og auðvelt. Spælt egg, pylsur, pitsur í pítsuofninum góða eða pönnusteiktur fiskbúðingur er hvað vinsælast þegar ég dett í eldamennskuna. En ég er aftur á móti yfirkokkur á sumrin og grilla mikið á því tímabili. Það er ýmislegt í uppáhaldi hér á bæ og uppáhaldið hjá strákunum mínum er Gordon Blue og bjúgur en rétturinn sem hefur heppnast vel og er rosalega góður er réttur sem heitir Kjúklinga Lasagne.“
Hefurðu gaman af því að dunda þér í eldhúsinu?
„Það er ágætt að dunda sér þar en eins og er þá hef ég ekki gefið mér mikinn tíma í það en eins og fyrr segir þá er minn tími á sumrin við grillið góða.“
Freyr ætlar að deila einni af sínum frægu uppskriftum en fyrir valinu varð kjúklinga Fajitas lasagne.
„Sagan á bak við þetta kjúklinga Fajitas lasagne er bara sú að konunni minni datt þetta í hug. Hún á hugmyndina að þessu alveg skuldlaust,“ segir Freyr hreinskilinn.
Uppskriftin:
Hráefni:
Fajitas kökur
6 kjúklingabringur
1 stór laukur
2 rauðar paprikur
2-3 krukkur af salsa sósu
1/2 l matreiðslurjómi
Rifinn ostur
Skera kjúklinginn í bita og steikja. Þegar það er búið er laukurinn og paprikan sett á pönnuna með kjúklingnum og það látið malla með.
Hella salsasósu á pönnuna ásamt rjóma og láta malla í smá stund. Þetta svo sett í eldfast mót, fyrst eru settar fajitas kökurnar í botninn og svo helmingurinn af því sem er á pönnunni yfir fajitas kökurnar, svo eru settar aftur fajitas kökur yfir og restin af því sem er á pönnunni er sett ofan á það. Í lokin er svo settur rifinn ostur yfir allt. Þetta er svo sett inn í ofn í 180 gráður í ca. 30 mín.
Meðlæti: Salat, Dorritos flögur og sýrður rjómi.
Gott er að mylja Dorritos fögurnar yfir réttinn þegar hann er kominn á diskinn.
Verði ykkur að góðu.