Hvert stefnir þú?
Í Reykjanesbæ er mikill keppnisandi. Það sér maður ekki síst á íþróttaleikjum en einnig í jólaskreytingum í desember og jafnvel í skólastofunum. Sumir vilja vera bestir og ná árangri fljótt og vel. Hér skiptir æfingin vitaskuld máli, æfingin skapar meistarann.
Í næstu viku hefst sumarlestur á Bókasafni Reykjanesbæjar og er slagorð sumarlestursins í ár „Lestur er grunnur að glæstri framtíð.“ Þetta vita þeir sem njóta bóka og þessu vill starfsfólk bókasafnsins koma á framfæri við grunnskólabörn í Reykjanesbæ. Það skiptir nefnilega jafnmiklu máli að æfa sig í lestri og öðru greinum sem maður vill ná árangri í. Lestur er undirstaða alls og með því að taka fjölbreyttan bókakost í hönd nærir maður lesskilninginn sem gerir mann færari í að koma orðum að hlutunum. Þá má ekki gleyma öllum skemmtilegu persónunum sem maður kynnist í bókum, já og leiðinlegu, og aðstæðunum sem sagt er frá og maður hefur kannski ekki færi á að kynnast nema í gegnum bækur.
Í dag milli klukkan 16 og 17 verður kynning á sumarlestrinum á Bókasafni Reykjanesbæjar. Dagskráin byrjar á verðlaunaafhendingu en síðan gefst áhugasömum kostur á að kynna sér fyrirkomulag sumarlesturs, fá lánþegaskírteini, læra á bókasafnið og kynnast safngögnunum.
Mynd: Frá sumarlestri í fyrra.