Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hvernig getur fólk búið hér?
Laugardagur 8. september 2018 kl. 06:15

Hvernig getur fólk búið hér?

Pólverjinn Robert Radoslaw Klukowski segir Íslendinga umburðalynda gagnvart útlendingum

Þetta var það fyrsta sem Róbert sagði þegar hann lenti á Íslandi en hann tekur það fram að Þórshöfn á Langanesi var fyrsti viðkomustaður hans hér á landi. Þar byrjaði hann að búa ásamt Beata pólskri eiginkonu sinni. Robert Radoslaw Klukowski sem er 46 ára gamall, kom hingað til lands árið 1994 vegna atvinnu ásamt eiginkonu. Þau hjónin byrjuðu bæði á því að vinna við fiskvinnslu. Hún starfar enn við það en hann vinnur sem vélvirki hjá Steypustöðinni og er að auki ökukennari.

Tungumálið opnaði dyr

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Blaðamanni var bent á að spjalla við Robert vegna þess hve duglegur hann hefur verið að aðlagast íslensku samfélagi og hversu vel hann talar íslensku. Robert segist vita það að tungumálið hafi opnað honum dyr. Innfæddir taka betur eftir þeim sem koma frá útlöndum og tala íslensku. Robert fór aldrei á námskeið heldur lærði að tala málið sjálfur.

Hann frétti af Íslandi í gegnum ættingja sína sem sögðu þetta fallega land vera langt í burtu og kalt en hér gæti hann þénað vel og búið sér til gott líf. Pólland er skógi vaxið land með heit sumur og því brá honum að koma á svona eyðilegan stað eins og Þórshöfn en það vandist. Þau hjónin ólust bæði upp á bóndabæ í grennd við borgina Bialystok en höfðu þessa ævintýraþrá eins og margir Pólverjar. Robert bendir á að Pólverjar þori að fara að heiman og prófa að búa í öðrum löndum. Það hefur verið lélegt atvinnuástand í heimalandi hans þar til núna en Pólland er í uppsveiflu og fleiri störf í boði þar en áður.

„Við erum auðvitað velkomin aftur heim til Póllands því nú fer að vanta vinnuafl þar en hér eigum við heima núna og líður vel á Íslandi. Hérna erum við frjáls og lífshraðinn ekki eins mikill og í Póllandi“, segir Róbert en þau hjón eiga tvo syni, Sebastian, tvítugan háskólanema og Dominik, 14 ára. Þeim fannst betra að flytja til Suðurnesja því hér er stutt í allt, meira að segja matvöruverslun! En það var ekki á Þórshöfn á sínum tíma, heldur þurftu þau að aka til Húsavíkur til að versla í matinn. Þetta hefur samt allt breyst þarna fyrir norðan í dag segja þau.

Íslendingar umburðalyndir

Þau vildu auðvelda sonum sínum að ganga menntaveginn með því að flytja suður og svo er stutt í Leifsstöð en þau fara á hverju sumri heim til Póllands og fá gesti þaðan einnig. Þeim finnst þau tilheyra tveimur löndum, bæði Póllandi og Íslandi. Synirnir eru báðir fæddir á Íslandi og öll fjölskyldan er með íslenskan ríkisborgararétt.

 Pólverjar eru líklega fjölmennasta þjóðin á faraldsfæti í heiminum í dag en um tuttugu milljónir Pólverja eru búsettir utan heimalands síns. Langflestir búa í Bandaríkjunum og Englandi. Robert segir marga Pólverja vera að leita að heimili annars staðar og séu ekki bara í atvinnuleit. Þeir vilja aðlagast þar sem þeir búa og skapa sér gott líf fyrir sig og sína en þetta hefur ekki verið hægt í Póllandi undanfarin ár fyrir alla þegna landsins.

„Frelsi er það besta við Ísland og öryggi. Íslendingar eru umburðarlyndir við útlendinga og þeir skipta sér lítið af því ef við erum öðruvísi. Þeir eru fordómalausir og hér er trúarbragðafrelsi sem okkur finnst mikilvægt. Við erum kaþólsk og fáum frið til þess að rækta trúna. Það er ekki í öllum löndum sjálfsagt mál,“ segir Robert.


Íslendingar opnari utan Reykjavíkur

Honum finnst munur á þeim Íslendingum sem búa í Reykjavík og úti á landi eða fyrir utan borgina. Fólk er opnara sem býr ekki í höfuðborginni finnst honum. Reykjavík er einnig að verða mjög alþjóðleg. Íslendingar hafa reynst þeim vel og þess vegna vilja þau búa hér.

Beata er fatahönnuður að mennt en starfar ekki við það í dag. Hún segist hafa fundið sig í blómarækt en Beata ræktar mikið af blómum. Saman eru þau hjónin að bardúsa í garðinum sínum sem er einstaklega fallegur. Í gróðurhúsinu rækta þau vínber, jarðarber, tómata og fleira.

„Það er alveg hægt að rækta margt á Íslandi þegar við erum með gróðurhús. Við reynum að hugsa ekki um veðrið og tökum því eins og það kemur. Heima í Póllandi voru húsin kynt með kolum og það var mikil vinna að halda kolunum gangandi. Hér á Íslandi eru heimilin upphituð með heitu vatni og það er algjör lúxus finnst okkur. Alltaf hlýtt inni í húsinu okkar þó úti sé kalt.“, segir Robert brosandi og er greinilega sáttur.