Hvernig er að fá mig heim á daginn?
Ég gerði mikilvæga uppgötvun þegar ég áttaði mig á því að umhverfismengun tengist ekki bara stóriðju, útblæstri og öðru eitri - nei, hún á sér ekki síður stað inni á heimilum okkar. Ég reyni alla jafna að vera jákvæð, skilningsrík og hlý manneskja en þrátt fyrir það á ég til að fá horn og hala og menga frá mér þar til menn og málleysingjar eru í stórri hættu og heilbrigðiseftirlitið mundi gera athugasemdir við reglubundnar mælingar. Sérstaklega er hætta á mengunarslysi þegar ég er undir miklu álagi og þá bitnar það einna helst á fjölskyldunni. Neikvæðni og pirringur ná þá yfirhöndinni og fíflunum fjölgar ótrúlega hratt í kringum mig. Ég hafði ekki velt þessu mikið fyrir mér fyrr en sl. vetur. Þá kom ég heim eftir einn af þessum álagsdögum og skrefin upp tröppurnar heima hjá mér voru þung enda drekaklærnar að birtast undan buxnaskálmunum. Þegar ég opnaði hurðina var ,,íþróttatöskustopparinn“ og ,,skóhrúgu-stappan“ að gera mér erfitt fyrir sem þýddi að ég þurfti hálfpartinn að troða mér inn um mjóa rifu og flækti svo klærnar í öllu dótinu. Meira þoldi ég ekki og þegar inn var komið hófst mengunarsöngurinn af fullum krafti:
Hvað á það að þýða þegar ég kem hingað inn
að detta um skóna á gólfinu í hundraðasta sinn
allar þessar töskur, úlpur, húfur og annað drasl
finnst ykkur ekki í lífi mínu nógu mikið basl!
Drekauggarnir og halinn birtust og ég hélt söngnum áfram þegar ég kom inn í eldhús og sá smjörið á borðinu. Við þá sýn gusuðust úr mér eiturgufurnar varðandi sóðaskapinn á heimilinu og var ég alveg að ná hæstu hæðum þegar eldri sonur minn kom út úr herberginu sínu og sagði: velkomin heim mamma mín......gekk niður í forstofu, lagaði það sem þurfti og hvarf með það sama aftur inn í herbergið sitt. Þetta voru ekki viðbrögðin sem mig vantaði, ég þurfti eitthvað eldfimt til að halda orkuflæðinu í toppi en í staðinn stóð ég á eldhúsgólfinu og eiturgufurnar púffuðust hálf máttlausar út úr eyrunum á mér. Ég sem hafði ekki einu sinni náð að segja „ekki þennan tón við mig“.
Þarna náði ég einhverjum botni og hugsaði „hvernig ætli það sé að fá mig heim á daginn“ og komst að því að það væri oft ekki spennandi. Þetta var óþægileg uppgötvun og ég hugsaði með mér að þessu yrði að breyta. Ég fór að vanda mig við heimkomur, en ekki þannig að ég breyttist í frú Ingalls (Húsið á sléttunni) á einu augabragði. Meira verið að tala um að koma heim og vera til staðar, veita athygli og hlusta, forðast að setjast beint við tölvuna til að halda áfram að vinna, eða rífa fram ryksuguna og ráðast á rykhnoðrana í drápsham, ennþá í útifötunum.
Til að gera langa sögu stutta þá gjörbreyttist andrúmsloftið á heimilinu. Auðvitað menga ég enn öðru hvoru og á mína erfiðu daga, en er miklu meðvitaðri en áður um að fjölskyldan á ekki að þurfa að sitja uppi með ,,leifarnar“ af mér í lok dags. Við treystum fjölskyldunni fyrir tilfinningum okkar, bæði góðum og erfiðum og því leyfum við okkur að sleppa vandvirkninni þegar heim er komið, en það má ekki verða til þess að heimilið verði ekki sá griðastaður sem við þörfnumst öll.
Skilaboðin mín eru því einföld. Spyrðu sjálfan þig þessarar einföldu spurningar ,,hvernig er að fá mig heim á daginn“! Varðandi vandamálið með skóna og töskurnar í forstofunni þá fann ég frábæra lausn. Ég kom þessu dóti fyrir á réttum stað og negldi það svo rækilega fast niður - málið leyst.
Rún vikunnar er Heild:
Þessi rún felur í sér hvötina til sjálfsþekkingar og bendir á þá leið sem hentar þér einum. Þú þarft að vera meðvitaður um eðli þitt, það sem ber dýpst í sálu þinni og draga það fram. Opnaðu þig, hleyptu ljósi inn í þann hluta lífs þíns sem hefur verið lokaður og hugsanlega þarftu að viðurkenna eitthvað sem hingað til hefur verið afneitað.
Þangað til næst - gangi þér vel
Anna Lóa