Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þriðjudagur 22. janúar 2002 kl. 13:18

Hver er tilgangur lífsins ?

Hefur þú einhvern tímann velt þessari spurningu fyrir þér. Án efa höfum við flest gert það. Sumir hafa sannfært sjálfan sig um eitthvert svar. Aðrir eru leitandi og vilja finna svarið við spurningunni um tilgang lífsins. Enn aðrir fara í gegnum lífið og finna ekki svarið. Er ekki einhver annar tilgangur með lífinu en að vinna átta til tíu tíma á dag, fara út og skemmta sér um helgar, safna skuldum o.sv.fr? Lífið er meira en það eitt. Öll finnum við fyrir því að spurningin um tilganginn sækir á okkur og krefst þess að henni sé svarað. Spurningin um hvers vegna og til hvers er ég hér. Ég held að það séu margir sem finni fyrir því að eitthvað vanti í líf sitt, en geta ekki skilgreint það nákvæmlega. Við getum kallað þetta lífsfyllingu. Öll viljum við leitast til að gera líf okkar betra, innihaldsríkara og þroskast andlega. Enda sýna skoðanakannanir að íslendingar eru mjög áhugasamir um andleg málefni.

Víða um heim hafa verið haldin námskeið þar sem verið er að leitast við að finna svör við spurningunni um tilgang lífsins. Það sem er einna merkilegast við þessi námskeið, er hvað þau hafa verið vinsæl. Það má svo sannarlega segja að þau hafa farið um heiminn eins og eldur í sinu.

Fólk sem hefur komið á þessi námskeið hefur flest allt staðfest að námskeiðið hafi hjálpað þeim að fá svör við þeim spurningum sem það er og var að glíma við frá degi til dags. Þessi námskeið hafa hlotið nafnið Alfa sem vísar til fyrsta stafins í gríska stafrófinu. Það segir að námskeiðið er nokkurs konar grundvöllur sem hægt er að byggja á.

Hér á Suðurnesjum hefur þetta námskeið verið haldið um fjögurra ára bil í Keflavíkurkirkju. Námskeiðið er breskt að uppruna og hannað þannig að fólk getur notið þess hvort sem það hefur enga eða mikla þekkingu á kristinni trú. Það sem er einnig áhugavert við þetta námskeið er hversu auðskiljanlegt það er. Umhverfið er ekki örgandi á neinn hátt. Þess vegna getur hver og einn notið sín á sínum forsendum.

Þarna er fjallað um trúna frá ýmsum hliðum eins og hvort trúin er sönn og rétt. Spurningunni um Jesú er varpað fram, hver var hann eiginlega? Var hann sannur? Af hverju leggur kirkjan þessa áherslu á dauða hans? Hvers vegna lét Guð hann deyja? Er eitthvað að marka Biblíuna? Er ekki sama hvernig og til hvers ég bið? Er ekki sama hverju ég trúi? Liggja ekki allar leiðir til Guðs? Hefur þú velt fyrir þér þessum eða álíka spurningum? Ef svo er, þá er tilvalið fyrir þig að koma á Alfa námskeið í Keflavíkurkirkju, og fá svör við þessum og ýmsum öðrum álíka spurningum. Alfa námskeiðin standa yfir í 10 vikur. Einu sinni í viku, á miðvikudagskvöldum frá kl. 19.00 til kl. 22.00. Í kvöld 23. janúar klukkan 19:00 er námskeið í Kirkjulundi Ég vil hvetja þig ágæti lesandi að skrá þig í sima 421-3895 (Ragnar og Málfríður), 421-4345 (Sgfús og Laufey) eða í Kirkjulundi sími 420-4300.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024