Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hver bær á sitt borð
Föstudagur 15. febrúar 2019 kl. 16:00

Hver bær á sitt borð

Þeir sem hafa verið nemendur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja kannast líklega við það að hafa hangið í frímínútum með þeim sem bjuggu í sama bæ. Áður fyrr var þetta kallað Grindavíkurhornið, Keflavíkurhornið, Njarðvíkurhornið, Sandgerðishornið, Garðshornið og Vogahornið. Já, einu sinni voru þetta horn með réttu í gamla húsnæði skólans en núna í mun stærra húsnæði eru þetta borð í stórum matsal þar sem nemendur hittast á milli kennslustunda.

Við kíktum á nemendur sem sátu við borðið þar sem Grindvíkingar hittast í frímínútum og báðum um stutt spjall sem var auðsótt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Arna Sif Elíasdóttir er 18 ára nemandi á raunvísindabraut:

Mig langar að verða læknir

„Mig langar að verða læknir, jafnvel barnalæknir, því ég er mjög hrifin af líffræði. Það er ekkert langt síðan ég ákvað að verða læknir. Mér finnst fínt að vera í FS. Kennararnir eru fínir sko. Til þess að það sé gaman í tíma þá þurfa kennararnir að vera skemmtilegir, glósa skemmtilega og vera hressir. Ég bý í Grindavík og mér var sagt að ég mætti ekki fara aftur fyrir súluna þarna því þar sitja krakkar úr öðrum bæ. Nei nei, þetta var kannski sagt meira í gríni við mig þegar ég byrjaði í FS en ég er að útskrifast sem stúdent eftir ár og gengur bara vel. Ég er búin að kynnast krökkum í skólanum og þekki líka helling af stelpum í Keflavík og Njarðvík sem ég hef kynnst í körfubolta en ég æfi með Grindavík. Félagslífið er ágætt hér en ég get ekki stundað það því ég hef svo mikið að gera en ég æfi sex sjö sinnum körfubolta á viku með náminu.“

Brynjar Örn Ragnarsson er 19 ára nemandi á fjölgreinabraut:

Frábært að útskrifast í vor

„Ég er að útskrifast í vor sem stúdent og það er frábær tilfinning. Þá ætla ég að taka mér pásu í ár og vinna við eitthvað verklegt, prófa eitthvað sem kannski yrði framtíðarstarfið mitt. Ég hef prófað að vera á sjó, fór eina helgi, en þar var sofið í átta tíma og unnið í sextán tíma. Var sjóveikur í einn dag en jafnaði mig svo. Ég þénaði vel og fannst þetta fínt. Kannski verð ég sjómaður, veit ekki. Pabbi er sjómaður og ég var einmitt einn túr á bátnum þar sem hann er. Ég stunda fótbolta með GG en það eru strákar sem eru að æfa fimm sinnum í viku og hafa gaman en við erum í 4. deild. Það er svo sem allt í lagi að vera í FS, ég þekki alla hérna og stutt að fara í skólann frá Grindavík. Það er ekki svo mikið félagslíf hér, maður mætir ef maður nennir. Annars er ég pítsusendill á Papas og vinn þar með skólanum.“