Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hveiti er lúxusvara
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 25. apríl 2020 kl. 08:57

Hveiti er lúxusvara

segir Keflavíkurmærin Brynja Lind Sævarsdóttir, hóteleigandi í litlum bæ í Frakklandi.

Keflavíkurmærin Brynja Lind Sævarsdóttir segir að það bjargi sér að mega fara út í göngutúr með hundinn en hún megi þó ekki vera lengur en í klukkustund. Hún rekur lítið hótel í smábæ í Frakklandi og við heyrðum í henni um stöðuna núna á tímum COVID-19.

Staðan hjá mér hér í Frakklandi er svo sem ágæt, ekki mikið um að vera og maður fer svo sem ekki mikið. Sem betur fer á ég hund sem þarf að fara með út reglulega. Þá fylli ég út pappír og gef upp tíma sem ég fer út. Má fara í klukkutíma en ekki lengra en eins kílómetra radíus frá skráðu heimilisfangi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

– Hafa verið gestir hjá þér á hótelinu síðustu vikur?

Já, það hafa verið gestir. Alls ekki fullt hótel, langt frá því, en ég er svo heppin að ég vinn með spítalanum í Riom og hér eru reglulega læknar og annað heilbrigðisstarfsólk ásamt þremur heimalingum sem ég kalla. Komast ekki heim til sín um helgar eins og ástandið er í dag.

– Hvernig leggst framhaldið í þig og grunar þig eitthvað hvernig það gæti orðið, t.d. sumarið?

Ég verð að vera bjartsýn, má ekki hugsa öðruvísi en að þetta verði betra. Hótelið mitt er líka hótel sem gengur vel allt árið, þetta er ekki ferðamannahótel og sem betur fer ekki hótel sem ég þarf að fylla 50 herbergi eða svo til að geta haldið áfram rekstri.

– Þér hefur ekkert dottið í hug að loka og koma bara heim?

Jú og nei ... en hér á ég heima í dag og verð að halda þessu gangandi. Er líka einhvern veginn meiri útlendingur í mér en Íslendingur held ég.

– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?

Hefðbundin símtöl eða myndsímtöl?

– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?

Ég myndi hringja í mömmu og pabba ekki spurning. Þau eru alltaf með réttu svörin og ráðin en hvort ég fari ávallt eftir þeim er svo annað mál.

– Hvernig ertu að upplifa nýjustu tíðindi um að það muni jafnvel taka margar vikur inn í sumarið að aflétta hömlum vegna COVID-19?

Verðum við ekki bara öll að hjálpast að og reyna að vera jákvæð. Þetta tekur virkilega á. Finnst reyndar mjög erfitt að vera svona föst, lokuð landamæri, þó svo ég sé ekki að fara að ferðast svo sem. Eitthvað svona tilfinningalega erfitt, að komast ekki heim þegar maður vill að hitta fólkið sitt!

– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?

Helling, t.d. þetta að það er ekki sjálfgefið að komast heim. Í fyrsta skiptið siðan ég var sautján ára og byrjaði að ferðast ein þá datt mér aldrei í hug að komast ekki heim ... og það er algjört „möst“ að eiga hveiti, það er lúxusvara í dag í mínum bæ og finnst ekki svo auðveldlega í búðum.



– Ertu liðtæk í eldhúsinu?

Já, mjög. Er alltaf að koma sjálfri mér á óvart. Ekkert grín.

– Hvað finnst þér virkilega gott að borða?

Elska fisk.

– Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?

Tajine, finnst ekkert skemmtilegra en að leika með framandi kryddjurtir.

– Hvað var bakað síðast á þínu heimili?

Belgískar vöfflur

– Ef þú fengir 2000 krónur. Hvað myndir þú kaupa í matinn?

Ég myndi kaupa hveiti og gott vín

– Hvað hefur gott gerst í vikunni?

Ég greindist neikvæð úr COVID-veirunni.

– Hvað hefur slæmt gerst í vikunni?

Þurfti að fara í próf vegna COVID-19 í annað sinn, núna var það skimun sem líka var gert fyrir þremur vikum en þeir bættu í þetta sinn við sneiðmyndatöku og blóðprufu.

– Hér er svo ein á léttum nótum. Hvaða spurningu hefðir þú viljað fá að svara í þessu viðtali? Hver er spurningin og svarið við henni?

– Ertu stoltur Íslendingur?

Já, svo sannarlega er ég það. Það er frábært að fylgjast með árangri að heiman vegna COVID-19, hve mikla og jákvæða umfjöllun íslenska teymið hefur fengið í erlendum fjölmiðlum.

HÉR AÐ NEÐAN MÁ SVO LESA ALLT NÝJASTA TÖLUBLAÐ VÍKURFRÉTTA.