Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hvað lásu íbúar Reykjanesbæjar á árinu 2019?
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
sunnudaginn 8. mars 2020 kl. 07:49

Hvað lásu íbúar Reykjanesbæjar á árinu 2019?

Safnkostur þarf að vera fjölbreyttur og þjóna öllum notendum,“ segir Stefanía Gunnarsdóttir, forstöðumaður Bókasafns Reykjanesbæjar

„Bæjarbúar hafa fjölbreytt og vítt áhugasvið og því þarf safnkostur að vera fjölbreyttur og þjóna öllum notendum,“ segir Stefanía Gunnarsdóttir, forstöðumaður Bókasafns Reykjanesbæjar, aðspurð um hvað væri vinsælasta lesefnið á síðastliðnu ári. Það er alltaf áhugavert að skoða hvaða bækur standa upp úr í vinsældum eftir hvert bókaár. Metsöluhöfundarnar gefa iðulega út nýjar bækur fyrir jólin og ávallt er mikil eftirvænting hjá lesendum að fá nýju bækurnar í hendur. Á sumum bókum er langur biðlisti en í safnið eru keypt mörg eintök af vinsælustu titlunum.

Árið 2019 var metár í útgáfu

Bókaútgáfa á árinu 2019 var blómleg og algjört metár hvað varðar útgáfu í mörgum flokkum og mörg ný skáld sem stigu fram en 47% aukning var í útgáfu bóka fyrir börn, 39% fyrir ungmenni og 21% í skáldverkum fyrir fullorðna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bókasafnið í hjarta bæjarins

Bókasafnið er menningarmiðja bæjarins þar sem fólk hittist, sækir sér bækur, fer á viðburði, skoðar sýningar í Átthagastofu og Ráðhúskaffi. Mikið líf og fjör hefur verið í safninu, leikskólabörn koma alla daga í sögustundir og grunnskólabörn koma í heimsóknir með kennurum sínum. Skráðir viðburðir á síðasta ári voru tæplega 200 með rúmlega 14.000 þátttakendum. Verkefnið „saumað fyrir umhverfið“ fékk aukinn slagkraft í aðdraganda Ljósanætur þar sem bæjarbúar tóku sig saman og saumuðu margnota taupoka eins og enginn væri morgundagurinn. Þessa poka má finna á pokastöðum í bókasafninu, völdum verslunum við Hafnargötuna og nú síðast setti Krónan á Fitjum upp pokastöð fyrir sína viðskiptavini. „Gaman væri að sem flestir íbúar komi á safnið til að sauma fyrir umhverfið eins og einn poka og leggja í púkkið“. Í september hlaut bókasafnið hvatningaverðlaun Upplýsingar, fagfélags á sviði bókasafns- og upplýsingafræða, fyrir verkefnið „saumað fyrir umhverfið“.

Það má ekki gleyma því að Bókasafn Reykjanesbæjar hefur samfélagsleg markmið eins og önnur bókasöfn. Því er ætlað að tryggja jafnan aðgang bæjarbúa að þekkingu og upplýsingum án tillits til efnahags, staðsetningar, uppruna bæjarbúa eða annarra þátta. „Við hvetjum fólk til þess að taka þátt en í safninu eru fastir liðir eins og leshringur, foreldramorgnar, notalegar sögusstundir með Höllu Karen, upplestrarkvöld, prjónaklúbbur, bókabíó, saumað fyrir umhverfið, spilað og litað saman, fyrirlestrar og föndurkvöld. Þá eru hafin útlán spila og kökuforma í safninu við mikla gleði lánþega.“

Nýtt útibú í Stapaskóla

Í nýjum Stapaskóla stendur til að opna útibú bókasafnsins á haustdögum 2021, á sama tíma og ný sundlaug verður tekin í gagnið á sama stað. Þá verður til langþráð menningarmiðstöð í Innri-Njarðvík þar sem íbúar geta komið saman á safnið í sínu nærumhverfi. „Safnið mun þjóna bæði sem skóla- og almenningssafn og það verður ótrúlega spennandi að fylgjast með hvernig það verkefni þróast.“

„Við hvetjum alla bæjarbúa til þess að koma í bókasafnið sitt,“ sagði Stefanía að lokum.

Hvað lásu lánþegar Bókasafns Reykjanesbæjar árið 2019:

Fullorðinsbækur:

Þorpið / Ragnar Jónasson

Gullbúrið / Camilla Läckberg

Hornauga / Ásdís Halla Bragadóttir

Sumar í litla bakaríinu við Strandgötu / Jenny Colgan

Sumareldhús Flóru / Jenny Colgan

Unglingabækur:

Ég gef þér sólina / Jandy Nelson

Harry Potter og viskusteinninn
/ J.K. Rowling

Harry Potter og leyniklefinn
/ J.K. Rowling

Vítisvélar: Borgir í veiðihug
/ Philip Reeve

Ljónið / Hildur Knútsdóttir

Barnabækur:

Þín eigin saga 4: Piparkökuhúsið
/ Ævar Þór Benediktsson

Barist í Barcelona / Gunnar Helgason

Dagbók Kidda klaufa / Jeff Kinney

Þín eigin saga 1: Búkolla / Ævar Þór Benediktsson

Þín eigin saga 3: Draugagangur
/ Ævar Þór Benediktsson

Hnokkabækur:

Skrímslakisi / Áslaug Jónsdóttir o.fl.

Bína fer í leikskólann / Ásthildur Bj. Snorradóttir

Stór skrímsli gráta ekki / Áslaug Jónsdóttir o.fl.

Kósýkvöld með Láru / Birgitta Haukdal

Söguaskjan mín / Isabelle Chauvet

Barnabækur á pólsku:

Angry birds: Czerwony rusza na pomoc!

Angry birds: Matylda ma duzy klopot!

Krab Karol

Koszmarny Karolek i wszy

H2O Wystarcst Kropla

Rafbókasafnið:

City of girls: a novel

Educated: a memoir

Sapiens: a brief history of humankind

The subtle art of not giving a f*ck

Why we sleep