Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hvað eru krakkarnir að lesa?
Frá keppninni á fimmtudag, hópurinn samankominn. Á morgun munum við birta fleiri viðtöl á vef okkar.
Laugardagur 15. mars 2014 kl. 09:18

Hvað eru krakkarnir að lesa?

Lestrarhestar úr 7. bekk í Reykjanesbæ og Sandgerði

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram, í sautjánda sinn í Reykjanesbæ, í bíósal Duushúsa á fimmtudaginn sl. Keppendur frá sex grunnskólum í Reykjanesbæ og grunnskólanum í Sandgerði tóku þátt í keppninni. Við tókum nokkra lestrarhesta tali sem tóku þátt í keppninni og spurðum þá út í hvað þeir væru að lesa, en nemendurnir eru allir í 7. bekk. Það má með sanni segja að krakkarnir séu dugleg að lesa og áhugasvið þeirra sé vítt.

Fer upp í rúm með fartölvuna til að lesa um hestamennsku

Gyða Sveinbjörg Kristinsdóttir í Holtaskóla er þessa stundina að lesa bók sem heitir Leyndardómur ljónsins. Þetta er skáldsaga eftir Brynhildi Þórarinsdóttur sem á að gerast á Reykjum í Hrútafirði. Hún valdi bókina þar sem hún fór með skólanum á Reyki í haust og átti frábærar stundir með krökkunum í Áslandsskóla í Hafnarfirði. Bókin er vel upp byggð og rosalega spennandi á köflum. Gyðu finnst gaman að lesa bækur sem byggja upp spennuna. Gyða stundar hestamennsku af kappi og les töluvert hestatengt efni. Í vetur las hún bækur um knapamerkin. Markmið knapamerkjanna er að stuðla að aukinni þjálfun og menntun í reiðmennsku. Gyða les sér mikið til um hestatengt efni á íslenskum vefsíðum og stundum fer hún upp í rúm með fartölvuna til að lesa hestasíður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Spenna er skilyrði

Svava Rún er nemandi í 7. bekk í Heiðarskóla. Um þessar mundir er hún að lesa verðlaunabók Andra Snæs Magnasonar Tímakistuna, sem kom út á síðasta ári. Tímakistan er spennandi ævintýrabók en í henni hefur mannkynið lagst í dvala og skógurinn tekið yfir borgirnar. Svava hefur mest gaman af ævintýrabókum þó hún segist lesa allar mögulegar tegundir bóka. Henni finnst þó algjört skilyrði að þær séu spennandi. Bíóbörn eftir Yrsu Sigurðardóttur er í miklu uppáhaldi hjá henni enda vantar ekki spennuna í þá sögu. Svava segist vel geta ímyndað sér að hún muni lesa heimsþekkta reifara Yrsu í framtíðinni.

Vísindi og gömul NBA blöð

Veigar Páll Alexandersson úr Njarðvíkurskóla er mikið að lesa tímaritið Lifandi vísindi og Guinness bækurnar um heimsmetin góðu. Undanfarnar vikur hefur Veigar Páll legið yfir gömlum NBA blöðum frá árinu 1995 sem kallast NBA Karfan. Þrátt fyrir að blöðin hafi komið út sex árum áður en Veigar Páll fæddist, hefur hann ákaflega gaman af því að lesa þau enda mikill áhugamaður um körfubolta.Veigar Páll er meira fyrir að lesa greinar heldur en sögubækur og hefur sérstaklega gaman að öllum vísindum.

Spenna og grín

Einar Bjarki Einarsson úr Myllubakkaskóla er að lesa bókina Nóttin lifnar við eftir Þorgrím Þráinsson. Honum finnst hún mjög spennandi. Hann er mjög hrifinn af bókum eftir Þorgrím og finnst hann ótrúlega góður rithöfundur. Einar les mikið og finnst skemmtilegast að lesa spennu- eða grínbækur.  Bækurnar um Bert eru í miklu uppáhaldi en hann hefur gaman af að lesa þannig grínbækur.

 

Hungurleikarnir í uppáhaldi

Thelma Rakel Helgadóttir úr Háaleitisskóla er mikið fyrir að lesa ævintýrabækur. Hungurleikarnir eru í miklu uppáhaldi hjá henni, bækurnar eru mjög spennandi og kláraði hún m.a. þrjár bækur á einni viku. Thelma er áskrifandi af tímaritinu Júlíu og henni finnst gaman að lesa það. Mamma hennar var mjög dugleg að lesa fyrir hana þegar hún var barn og þannig kviknaði áhugi hennar á að lesa bækur. Í frítíma sínum æfir hún jazzballett og svo syngur hún líka í kór Hjálpræðishersins.

 

Hefur gaman af spennusögum

Benjamín Kristján í Akurskóla hefur gaman af að lesa bækur eftir Agöthu Christie og um lögreglumanninn Sherlock Holmes. Hann las síðast Rangstæður í Reykjavík eftir Gunnar Helgason en það fannst honum besta bókin í seríunni hingað til. Benjamín les gjarnan Söguna alla og Lifandi vísindi og hefur gaman af öllu sem tengist heimssögu og vísindum. Hann er líka að lesa Harðskafa eftir Arnald Indriðason og finnst hún góð, sérstaklega vegna þess hve spennan magnast hægt og rólega. Benjamín finnst líka ágætt að lesa enskar bækur.

 

 

 Á morgun munum við birta fleiri viðtöl á vef okkar.