Hva, ert þú hérna ennþá?
„Æi, ekki vera með þetta vesen“, sagði hin eldhressa Sólveig Sigfúsdóttir þegar blaðamaður var mættur til að hitta hana á vinnunni í morgun í Lyf og heilsu. Sem margir bæjarbúar kalla reyndar bara „Apótekið“ með stóru A-i. Enda hefur lyfjaverslun verið rekin í þessu húsi við Tjarnargötuna lengur en fólk á besta aldri man, lengst af undir merkjum Apóteks Keflavíkur. Og Sólveig hefur svo að segja verið hluti af sögu Apóteksins, enda búin að eyða megninu af starfsævinni þar innan veggja í rúm 44 ár.
En frá og með deginum í dag fær Apótekið ekki lengur að njóta starfskrafta Veigu, því hún er að láta af störfum, orðin 67 ára.
Það var létt andrúmsloftið á kaffistofunni í Lyf og heilsu í morgun þegar Veiga og samstarfsfólk hennar fagnaði þessum tímamótum með kaffi og ljúffengri rjómatertu. Ekki laust við að smá tregi lægi í loftinu líka, enda mikil eftirsjá í samstarfsfélaga eins og Veigu.
Að sögn Veigu hafa brottfluttir bæjarbúar, sem komið hafa heim eftir margra ára fjarveru, oft orðið nokkuð hvumsa þegar þeir hafa séð hana innan við búðarborðið í Apótekinu. Veiga segir að sér finnist það alltaf jafn skondið þegar fólk spyr með undrunarsvip: „Hva, er þú hérna ennþá?“
Veiga heldur upp á starfslokin með smá veislu í kvöld fyrir samstarfsfólk, vini og vandamenn.
„Má ég ekki þá bara hringja í þig í kvöld þegar þú ert komin á fimmta og taka smá viðtal“, spyr blaðamaður í gríni.
„Nei, það er ekki hægt“.
„Nú, af hverju ekki?“
„Af því að ég lognast útaf löngu áður en ég kemst á fimmta“, svaraði hún hlæjandi.
Mynd: Veiga var að sjálfsögðu gerð að handhafa veglegrar blómaskreytingar í tilefni dagins. Hér er hún ásamt samstarfsfólki í Lyf og heilsu í morgun.
Mynd og texti: Ellert Grétarsson