Húsfyllir og mikið fjör á barnaskemmtun í Andrews
Það var heldur betur fjör á barnaskemmtuninni „Leitin að Andrési“ sem haldin var í Andrews-leikhúsinu á Ásbrú í Reykjanesbæ sl. laugardag. Húsfyllir var í leikhúsinu og þar skemmtu sér konunglega börn á öllum aldri.
Eins og í öllum ævintýrum þá fannst Andrés að lokum en til þess að finna hann höfðu verið kallaðir til hinir ýmsu aðilar og meðal annars aðstoðaði lögreglan við leitina.
Barnaskemmtunin var haldin til að styrkja Velferðarsjóð Suðurnesja og safnaðist upphæð sem er vel á aðra milljón króna. Aðgangur var þó ókeypis að hátíðinni en það voru hin ýmsu fyrirtæki sem buðu til hátíðarinnar og greiddu aðgangseyrinn fyrir börnin í Velferðarsjóðinn.
Ekki var annað að heyra á börnunum en að þau bíði spennt eftir framhaldinu á leitinni að Andrési sem verður þá vonandi haldin að ári.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í Andrews á laugardaginn. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Húsfyllir var í Andrews á laugardaginn.