Hulda tók forsíðumynd Víkurfrétta
– Er ég eitthvað kindarleg?
Er ég eitthvað kindarleg? spurði Hulda G. Geirsdóttir með ljósmynd sinni sem hún tók við rústir á Hópsnesinu við Grindavík þar sem kind horfði til hennar í gegnum glugga í rústunum. Mynd Huldu hlaut flest atkvæði þeirra þriggja mynda sem dómnefnd sem skipuð var af ritstjórn Víkurfrétta valdi.
Leikurinn fór þannig fram að lesendur gátu sett inn myndir á fésbókina og merkt #forsidavf. Dómnefnd valdi svo úr þeim myndum þrjár myndir til úrslita og sú mynd sem fengi flest „like“ í úrslitunum færi á forsíðu Víkurfrétta í dag. Í úrslitum voru einnig mynd af Snæfellsjökli eftir Ingveldi Ásdísi Sigurðardóttur og mynd af öldnum sjómanni sem Birgitta Ína Unnarsdóttir tók.
Svo fór að mynd Huldu hlaut 668 „like“ á fésbókarsíðu Víkurfrétta, mynd Ingveldar Ásdísar fékk 528 „like“ og Birgitta Ína fékk 164 „like“ á myndina sína í úrslitum.
Víkurfréttir hafa ákveðið að halda leiknum áfram og velja aðrar þrjár myndir til úrslita í næstu viku. Til að taka þátt í leiknum þarf fólk að setja myndir á vegginn sinn á fésbókinni og merkja myndina #forsidavf.
Þátttakendur þurfa að gæta þess að myndin sé opin öllum en ekki birt þannig að aðeins vinir sjái. Dómnefnd Víkurfrétta velur svo þrjár myndir næsta mánudag og lesendur geta síðan kosið þá mynd sem er best með því að smella „like“ á myndina. Sú mynd sem fær flest atkvæði í úrslitaviðureigninni verður forsíðumynd Víkurfrétta í næstu viku.
Við gerum kröfu um að myndin sé tekin á Suðurnesjum og sé frá þessu sumri. Ekki er verra ef myndin sýnir annað hvort fólk eða dýr. Myndin þarf ekki að vera náttúrulífsmynd og getur allt eins verið af brosandi bæjarbúum eða götulífsmynd frá Suðurnesjum.
Höldum áfram að taka skemmtilegar myndir og merkjum þær #forsidavf.
Ingveldur Ásdís Sigurðardóttir á myndina í 2. sæti.
Birgitta Ína Unnarsdóttir tók myndina sem hafnaði í 3. sæti keppninnar í þessari viku.