Huginn Heiðar eins árs í dag
Litla hetjan Huginn Heiðar Guðmundsson varð eins árs í dag. Hann hefur braggast vel eftir að hann kom heim frá Bandaríkjunum fyrir rúmum mánuði.
Fyrir þá sem ekki þekkja sögu Hugins hélt hann utan með foreldrum sínum og gekkst undir lifrarskipti fyrir 6 mánuðum. Lifur hans var óstarfhæf vegna sjaldgæfs sjúkdóms sem kallast risafrumulifrarbólga og þurfti hann að fá græddan í sig hluta af lifur móður sinnar.
Huginn er á hægum en stöðugum batavegi á barnaspítala Hringsins en víst er að fjölmargir hugsa til þessa unga afreksmanns sem hefur staðið af sér raunir sem fáir gætu þolað. Á meðal góðvina Hugins og fjölskyldu hans er knattspyrnudeild Keflavíkur sem hefur efnt til söfnunar í tilefni af afmælinu. Foreldrar Hugins hafa einmitt unnið mikið fyrir deildina í gegnum tíðina.
Stjórnarmenn og stuðningsfólk Keflavíkur hafa undir höndum sérstakt eyðublað sem fólk og fyrirtæki geta skráð sig á og lagt þessu góða málefni lið. Lögð er áhersla á að fólk styrki um þá upphæð sem það ræður við, allt frá 1.000 krónum.
Sparisjóðurinn í Keflavík er fjárgæsluaðili söfnunarinnar og þeir sem hafa heimabanka geta lagt beint inn á reikning söfnunarinnar í Sparisjóðnum á eftirfarandi reikning: 1109-05-410710. Kennitalan er 610269-3389.