Hugað að heimareitnum í Keflavík
Verslunarmannahelgin hjá Sigríði Guðjónsdóttur lögreglustjóra
Víkurfréttir spurðu Suðurnesjamenn út í áform þeirra um verslunarmannahelgina en fólk er ýmist á leið á útihátíðir með vinunum, í sumarbústað með fjölskyldunni eða slaka á heima við og njóta kyrrðarinnar.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir er lögreglustjóri á Suðurnesjunum og finnst mikilvægt að fólk kynnist skemmtilegu fólki og landinu sínu betur þessa helgi.
Hvað á að gera um verslunarmannahelgina og hvert á að fara? Fjölskyldan hefur verið á faraldsfæti í sumar, við áttum dýrðardaga í Kaupmannahöfn og í Álaborg. Þá höfum við gert víðreist milli vina og vandamanna innanlands svo margt bendir til þess að við tökum því rólega og hugum að heimareitnum okkar í Keflavík.
Er einhver verslunarmannahelgi sem er eftirminnilegri en aðrar hjá þér? Af einhverjum ástæðum eru tjaldútilegur minnistæðastar þegar kemur að verslunarmannahelgum fyrri ára. Við ættum kannski að fara að dusta rykið af útilegugræjunum!
Hvað finnst þér einkenna góða verslunarmannahelgi og finnst þér eitthvað vera ómissandi um þessa helgi? Fólk á að safna góðum minningum, kynnast skemmtilegu fólki, landinu sínu og auðvitað sjálfu sér líka. Svo koma allir heilu og höldnu heim eftir að hafa ekið allsgáðir heim á löglegum hraða.