HS Orka fær liðsauka
	HS Orka hefur bætt við sig fjórum nýjum starfsmönnum á sviði kynningar- og tölvumála, fjármála og skrifstofustjóra.
	
	Ásdís Gíslason hefur verið ráðin kynningarstjóri HS Orku. Helstu verkefni hennar eru á sviði markaðs- og kynningarmála.
	„Ásdís starfaði áður hjá Orkuveitu Reykjavíkur, frá árinu 2007, á sölu og markaðssviði meðal annars sem markaðsstjóri. Ásdís hefur frá árinu 2014 unnið sem markaðsstjóri Orku náttúrunnar þar sem helstu verkefni voru uppbygging á nýju vörumerki og stýring á markaðsdeildinni.
	Hún er með MSc í Markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá HÍ og BS-gráðu í landafræði frá HÍ. Ásdís er gift Páli Þórhallssyni lögfræðingi og eiga þau tvö börn,“ segir í tilkynningu frá HS Orku.
	
	Brynjar Steinn Jónsson, hefur verið ráðinn sem sérfræðingur í tölvudeild.  Helstu verkefni hans verða umsjón og eftirlit með netþjónustu auk notendaaðstoðar.
	Brynjar starfaði áður sem svæðisstjóri hjá Símafélaginu á Suðurnesjum og var eigandi og framkvæmdastjóri Netsamskipta til margra ára.
	Brynjar er tölvu- og tæknistúdent frá Iðnskólanum í Reykjavík og tók 1 ár í tölvunarfræði í HR.  Hann er giftur Bylgju Dís Erlingsdóttur, aðalbókara og launafulltrúa Skólamatar og eiga þau eitt barn.
	Arna Björg Rúnarsdóttir hefur verið ráðin skrifstofustjóri hjá HS Orku. Helstu verkefni hennar eru á sviði móttöku, skjalamála og sem gjaldkeri.
	Áður starfaði Arna Björg í lögfræðiinnheimtu hjá Lögheimtunni ehf. og þar áður hjá Landsbankanum í einstaklingslausnum.
	Arna er með BA og MSc í lögfræði frá HR. Arna er í sambúð með Bjarna Rúnari Einarssyni byggingarfræðingi og eiga þau þrjú börn.
	Kristján Sigurðsson, hefur verið ráðinn sérfræðingur í fjármálum en hans helstu verkefni eru umsjón með íslenska djúpborunarverkefninu.
	Hann starfaði áður sem sérfræðingur á lánasviði Hilda ehf., þar sem hann vann við verðmat á eignasafni félagsins hjá Hilda ehf.
	Kristján er BS í viðskiptafræði frá HÍ. Kristján er í sambúð með Söndru Dögg Pálsdóttur, verkefnastjóra hjá RB, þau eiga fjögur börn.
	 


 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				