Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hrútarnir eiga hug hennar allan
Mánudagur 3. desember 2012 kl. 08:57

Hrútarnir eiga hug hennar allan

Guðrún Kjartansdóttir mynd- og leirlistarkona rekur GK Leir og Litir við Vitatorg í Sandgerði. Hún hefur verið að vinna með leir meira og minna í fjórtán ár og nú eru það hrútar í ýmsum stærðum sem eiga hug hennar allan. Guðrún hefur handverkið að atvinnu og segist bara nokkuð sátt.

Verkin sem Guðrún vinnur í leirinn eru frostþolin og stærstu hrútarnir sem hún gerir eru hugsaðir fyrir útikerti. Þá eru einnig minni útgáfur til skrauts og þá má nota fyrir teljós, tannstöngla, penna eða annað smálegt. Þá hefur hún einnig mótað hrúta sem settir eru upp á vegg.

Fyrir jólin hefur Guðrún einnig gert syngjandi jólasveina í nokkrum stærðum. Hins vegar hafa verið það miklar annir í hrútagerðinni að sveinahópurinn er ekki eins fjölmennur fyrir þessi jól eins og oft áður. Þá gerir hún einnig kertakúlur í hraunlitum og með hrímaðri áferð og margt fleira.

Handverkið selur Guðrún svo í verslanir víða um land, m.a. Íslandia-Eymundsson, Rammagerðina, Álafoss og í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þá er vinnustofan hennar við Vitatorg í Sandgerði opin þannig að fólk getur fylgst með Guðrúnu við vinnuna og keypt af henni handverk en þar er núna mikið úrval af hrútum í mörgum stærðum og nokkrum litum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hrútarnir hjá Guðrúnu eru í nokkrum stærðum. Sá stóri er sérstaklega hugsagður fyrir útikerti.

Þessi hrútur er gerður til að hafa uppi á vegg.

Syngjandi jólasveinar mynda kór.

Skemmtilegar kertaskálar.