Hringitónninn vekur lukku
Jóna Rut Jónsdóttir, grunnskólakennari, 3ja barna móðir og nýkjörinn bæjarfulltrúi í Grindavíkurbæ er þessa dagana að hefja nýtt skólaár ásamt nemendum og samstarfsfólki. Hún segir að lítið hafi verið um ferðalög hjá sér í sumar en hún fór á tvenn fótboltamót í útilegu sem „soccermom“ á Rey Cup og Símamótið og í viku með manninum sínum til Tyrklands. „Það bjargaði algjörlega sólarlausa sumrinu á Íslandi og hlóð batteríin fyrir veturinn. Svo byrjar pólitíkin á fullu með haustinu og verður gaman að takast á við hana.“
Bókin
Í sumar hef ég verið að lesa Maðurinn sem var ekki morðingi og Gröfin í fjallinu eftir Hjorth Rosenfeldt, höfund sjónvarpsþáttanna Brúin. Þetta eru sögur um réttarsálfræðinginn Sebastian Bergman sem leiðbeinir sænsku morðdeildinni í sakamálum. Það eru alls konar fléttur sem koma fram í bókunum og maður þarf að gefa sér góðan tíma í að lesa þær. Ég hef oftast lítinn tíma á veturna að lesa skáldsögur og er þá frekar að lesa eitthvað vinnutengt en gef mér tíma á sumrin til að detta niður í góðar skáldsögur. Ég er veikust fyrir spennusögum/krimmum og rithöfundar frá Norðurlöndunum eru góðir í að skrifa þannig bækur.
Sjónvarpsþættir
Ég hef mjög gaman af raunveruleikaþáttum eins og American Idol og X-factor. Fjölskyldan hefur líka þetta áhugamál þannig að föstudagskvöld eru sjónvarps-„partý“ kvöld hjá okkur. Svo er ég líka mikið fyrir ameríska spennuþætti, en í sumar þá hef ég verið að fylgjast með Crisis sem er um mannræningja sem rændu börnum mjög háttsettra foreldra í USA og fá foreldrana til að gera ýmislegt ólöglegt til að frelsa börnin sín. Og svo má ekki gleyma Orange is the new black, en þeir eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Það er gaman að fylgjast með Piper og "dömunum" í fangelsinu í sjálfsbjargarviðleitninni.
Tónlistin
Ég er mikil alæta á tónlist og hef gaman að því að fara á tónleika og njóta góðrar tónlistar. Ég er sérstaklega hrifin af söngkonunni Pink og finnst hún standa upp úr í dag. Ég fór t.d. á tónleikana með henni þegar hún kom hingað til landsins 2004 og voru það einir bestu tónleikar sem ég hef farið á. Lagið hennar Just give me a reason er í miklu uppáhaldi og ég er með það sem hringitón í símanum mínu öðrum til mikillar gleði en ég er oft beðin um að svara ekki. Í mars fór ég líka á alveg frábæra tónleika hérna í Grindavík í tilefni að 40 ára kaupstaðarafmæli bæjarins, en þeir voru með Jónasi Sig. og ritvélum framtíðarinnar, Fjallabræðrum, Sverri Bergmann og lúðrasveitum Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Þetta voru alveg frábærir tónleikar og tónlistarmenn á heimsklassa.