Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hreystibraut vígð í Vogum
Þriðjudagur 16. maí 2006 kl. 12:35

Hreystibraut vígð í Vogum

Ný hreystibraut var vígð við Stóru-Vogaskóla um helgina, en um er að ræða glæsilega þrautabraut sem minnir á Fitness keppnirnar sem hafa átt miklum vinsældum að fagna.

Þrautirnar sem um ræðir eru m.a. að klifra yfir rimla, upp netavegg og kaðal. Brautin er hönnuð og byggð af kraftakarlinum Andrési Guðmundssyni, en hann stóð fyrir keppnini Skólahreysti sem var á milli grunnskólanna á höfuðborgarsvæðinu í vetur.

Kristján Ársælsson, margfaldur Íslandsmeistari í Fitness, vígði brautina og sýndi hvernig meistarar fara að.

Andrés sagði í samtali við Víkurfréttir að hann stefndi að því að breiða keppnina út næsta vetur, en brautin í kepninni er nákvæmlega eins og sú sem er í Vogum. Þetta er fyrsta útibraut sinnar tegundar á landinu, en fyrir var eins konar reynslubraut í Mosfellsbæ.

Andrés vann brautina í samstarfi við Neytendastofu til að fullnægja öllum öryggiskröfum þannig að ef farið sé að reglum eigi ekki að vera slysahætta.

„Það sem er svo skemmtilegt við þetta er að hér geta krakkar fengið alhliða hreyfingu og skemmt sér konunglega í leiðinni,“ segir Andrés. „Ég hef fengið mikið af fyrirspurnum frá sveitarfélögum sem vilja fá braut til sín, þar á meðal héðan af Suðurnesjum.“ Þannig má búast við að Hreystibrautir muni rísa víða á næstunni.

Kostnaður af brautinni er greiddur af bæjarsjóði, og sagði Jón Gunnarsson, formaður bæjarstjórnar, að hugmyndin hafi kviknað síðasta haust og ákveðið hafi verið að slá til. Hún hefði hins vegar aldrei getað orðið að veruleika ef ekki hefði komið til fólksfjölgun síðustu ára og uppgangurinn sem henni fylgdi.

Staðsetning brautarinnar er einnig skemmtileg því hún stendur nærri rústum Stóru-Voga, en þar bjó hreystimennið annálaða Jón Daníelsson forðum.

Krakkarnir í Vogum hafa svo sannarlega tekið brautinni fagnandi og hefur verið biðröð alla daga fram á kvöld síðan hún var sett upp. Jafnvel hafa fullorðnir sést stelast í brautina svo lítið beri á, en það er víst í lagi líka því holl hreyfing er fyrir alla.

VF-myndir/Þorgils
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024