Hressir Fjörheimakrakkar á Samfés
Kátt var á hjalla hjá krökkunum í Fjörheimum í Reykjanesbæ sem fóru á Samféshátíðina í Laugardalshöll um síðustu helgi. Um er að ræða árlega hátíð Samfés, sem eru samtök félagsmiðstöðva á Íslandi, þar sem allt að 5000 unglingar koma saman og skemmta sér í góðra vina hópi.
Um 120 unglingar frá Reykjanesbæ sóttu hátíðina að þessu sinni en þau áttu einn þátttakanda í söngkeppni Samféss, Elsu Dóru Hreinsdóttur, sem söng lagið Pabbi minn, úr söngleiknum Öskubusku, af mikilli snilld án þess þó að komst í verðlaunasæti.
Fjörheimar áttu einnig sína fulltrúa meðal ungra og efnilegra hljómsveita sem fengu að spreyta sig á minna sviðinu en bandið Lost Words lék þar fyrri viðstadda.
Að sögn forsvarsmanna Fjörheima voru krakkarnir til mikillar fyrirmyndar og sönnuðu það að krakkar úr Reykjanesbæ eru með þeim stilltustu á landinu eins og segir á heimasíðu félagsmiðstöðvarinnar, en þar má einnig finna fjöldan allan af myndum frá helginni.