Hreinn hryllingur í Suðsuðvestur
Sýningin „Hreinn hryllingur“ opnar í Suðsuðvestur í Reykjanesbæ á laugardag kl. 16.
Þetta er samstarfsverkefni listamannanna Birgis Snæbjarnar Birgissonar og JBK Ransu þar sem að fagurfræðilegar og siðferðislegar spurningar um hreinleikann skerast. Hreinleiki er skilgreindur sem eitthvað ómengað og óspillt og hefur löngum vegið þungt í kenningum um fagurfræði sem kristallast í leit listamanna að „hinu hreina formi“. Þjóðernishyggja snýst einnig um hreinleika og er mannkynssagan uppfull af atburðum þar sem þjóðernishyggja verður drifkraftur þjóðar í
skipulagðri útrýmingu á öðrum þjóðum eða kynstofnum undir réttlætingu eigin hreinleika sem, líkt og listin, byggir á fagurfræði.
Í „Hreinum hryllingi“ er tvígreining á hinu fagra og hryllilega sett í áþreifanlegt form sjónlistar. Sýningin verður opin á laugardögum og sunnudögum frá kl. 14-17.
Henni lýkur 5. ágúst.
VF-Mynd/Þorgils