Hrædd um að ástandið eigi eftir að vara lengi
segir Guðbjörg Bjarnadóttir Özgun sem hefur búið og starfað í Bandaríkjunum í tæp fjörtutíu ár.
Guðbjörg Bjarnadóttir Özgun hefur búið og starfað í Bandaríkjunum í tæp fjörtutíu ár og er starfsmaður í sendiráði Íslands í Washington DC. Hún segist heppin að geta unnið heima á tímum COVID-19 en er hrædd um að ástandið eigi eftir að vara lengi.
– Hvernig hefur COVID-19 haft áhrif á þig og fjölskylduna?
Í stóru myndinni tel ég okkur heppin að við getum öll unnið heima en auðvitað er þetta búið að vera erfitt eins og hjá flestum. Faðir minn lést í lok mars, það var mjög erfitt að geta ekki verið með honum þessa síðustu daga og ekki getað verið með fjölskyldu minni á þessum erfiða tíma en þakka guði fyrir að hafa getað verið með honum og minni stórfjölskyldu á FaceTime.
– Hvernig hafið þið brugðist við?
Við höldum okkur mest heima við, höldum okkur í tveggja metra fjarlægð þegar við förum í búð, notum spritt og grímur og þegar við hittum börn og barnabörnin höldum við okkur líka í fjarlægð.
– Hvernig leggst framhaldið í þig og hvernig sérðu það fyrir þér?
Ég er hrædd um að þetta eigi eftir að standa lengi og er með áhyggjur að þetta eigi eftir að koma sér illa hjá mörgum. Höldum í trú og von um að fara til Íslands í langt sumarfrí.
– COVID-19 hefur auðvitað haft áhrif á starfsemi íslenska sendiráðsins í Washington, þar sem þú starfar.
Já, borgaraþjónusta ráðuneytisins á hrós skilið. Það var unnið allan sólarhringinn til að aðstoða Íslendinga um allan heim við að finna flugleiðir fyrir fólk að komast heim. Við í sendiráðinu hér vorum í sambandi við fólk í Suður- og Norður-Ameríku og gekk þetta bara nokkuð vel.
– Hvernig er staðan í þínu nærumhverfi?
Ralph Northam, ríkissstjórinn í Virginiu þar sem ég bý, setti fram yfirlýsingu þann 30. mars þar sem hann hvatti alla sem geta verið heima að gera svo. Allir skólar eru lokaðir í Virginiu og nágrenni (MD og DC) og öllum elliheimilum hefur verið lokað fyrir heimsóknir. Í sýslunni þar sem ég bý, Fairfax, en þar búa rúmlega milljón manns, eru áberandi mörg smit að finnast á hverjum degi. Það er verið að vona að í enda vikunnar fari að draga úr smitum. Hann setti þessa skipun á þar til 10. júní með það í huga að hann getur breytt því.
Fólk fer eftir þessum reglum og heldur sér í tveggja metra fjarlægð, fer í sjálfskipaða sóttkví ef það er með undirliggjandi sjúkdóma, fólk er mikið með grímur ef það fer í matvörubúðina og er þar tekið stíft á að að halda sér í fjarlægð frá hinum. Það er komið vor og fólk er mikið að hlúa að heimilum sínum og görðum þar sem það er enn opið í byggingavöruverslunum. Fólk að notfæra sér það.
– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?
Við erum í daglegu sambandi við móður mína á FaceTime svo erum við reglulega að hitta vini ýmist á FaceTime og Zoom.
– Hefðbundin símtöl eða myndsímtöl?
Notum Skype og Zoom fyrir fundi og annað í sambandi við vinnuna.
– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?
Mamma, sakna hennar mjög mikið.
– Hvernig ertu að upplifa nýjustu tíðindi um að það muni jafnvel taka margar vikur inn í sumarið að aflétta hömlum vegna COVID-19?
Ég tek bara einn dag í einu.
Guðbjörg, Ali eiginmaður hennar og dæturnar, Leyla og Dora.
– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?
Vera alltaf góð við hvert annað.
– Ertu liðtæk í eldhúsinu?
Já, ég tel mig vera það.
– Hvað finnst þér virkilega gott að borða?
Góða, grillaða steik.
– Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?
Alls konar pottrétti.
– Hvað var bakað síðast á þínu heimili?
Konfektterta.
– Ef þú fengir 2000 krónur. Hvað myndir þú kaupa í matinn?
Kjöt í hamborgara, brauð og kartöflur fyrir franskar kartöflur.
– Hvað hefur gott gerst í vikunni?
Dóttir okkar og hennar fjölskylda fluttu í nýtt hús.
– Hvað hefur slæmt gerst í vikunni?
Fréttin um að það muni jafnvel margar vikur inn í sumarið að aflétta hömlum vegna COVID-19?
Hvaða spurningu hefðir þú viljað fá að svara í þessu viðtali? Hver er spurningin og svarið við henni?
– Hvenær áttu afmæli?
Á miðvikudaginn 22. apríl. Ég hlakka alveg ótrúlega mikið til.
(Viðtalið var tekið fyrir afmælisdag Guðbjargar.)
Guðbjörg með samstarfskonu sinni Ásdísi og Geir Haarde sendiherra í Washington.