Hollt fyrir sálina að vera með
– segja þær Fríða Bjarnadóttir og Salome Kristinsdóttir en þær starfa báðar með Kvenfélagi Keflavíkur
Það getur haft góð áhrif heilsufarslega að vera með í félagsstarfi eða svo segja rannsóknir. Allskonar félög eru sífellt að leita að nýjum meðlimum. Upplagt fyrir þá sem langar að komast út á meðal annarra, taka þátt og vera með í starfi þar sem virknin byggir stundum á að hjálpa öðrum.
Nýjar konur velkomnar
Kvenfélag Keflavíkur er eitt þessara félaga sem er alltaf opið fyrir nýjum félagskonum. Þær Salome Kristinsdóttir, formaður félagsins, og Fríða Bjarnadóttir, meðstjórnandi, hittu blaðamann á dögunum og sögðu frá líflegu starfi félagsins.
„Já, við tökum hlýlega á móti öllum konum sem vilja kynna sér starfið okkar og þær mega vera á öllum aldri, ungar og eldri konur. Það er aldrei of seint að byrja,“ segir Salome sem hefur starfað í félaginu í mörg ár en hún gerðist félagsmaður þegar hún flutti til Keflavíkur.
Man vel eftir þorrablótunum
Fríða Bjarna segist nánast vera alin upp í félaginu en móðir hennar var einnig kvenfélagskona. „Ég gekk í félagið fyrir fimmtíu árum síðan til þess að komast á saumanámskeið en svo slæddist ég meira inn í starfið, var valin í stjórn og varð seinna formaður. Ein elsta æskuminning mín tengist Kvenfélaginu. Ég man svo vel tilstandið heima í eldhúsinu í kringum þorrablótin og alla vinnuna sem móðir mín lagði í undirbúning þessarar helstu skemmtunar sem þorrablót Kvenfélagsins var á þeim tíma í Keflavík. Þá þurftu konur að elda allan matinn heima og hann var síðan borinn fram á trogum. Það voru heimatilbúin leikrit á þessum skemmtunum, fjöldasöngur og fleira skemmtilegt,“ segir Fríða og brosir þegar hún rifjar þetta upp.
„Yndislegt í gegnum tíðina að geta látið gott af sér leiða og vera með í þessum skemmtilega hópi kvenna“
Að hjálpa öðrum
„Kvenfélag Keflavíkur hefur alltaf haft það að markmiði að styðja við ýmsa einstaklinga og fjölskyldur í samfélaginu okkar. Þetta er líknarfélag fyrst og fremst. Við gefum úr sjóðum félagsins og höfum fjáröflun til þess að safna peningum í sjóðinn. Það er kaffisala hjá okkur á hverju ári, þann 17. júní í húsnæði Bjargarinnar fyrir aftan skrúðgarðinn. Svo erum við með kaffisölu á Ljósanótt við Hafnargötu. Einu sinni vorum við alltaf með fjáröflun í göngugötunni hjá Nettó og seldum þar allskonar fínar tertur og kökur sem gekk vel að selja. En því miður tóku Samkaupsmenn fyrir þessa fjáröflun okkar og ýmissa annarra félagasamtaka. Það er synd því þetta skapaði einnig skemmtilega stemmningu á torginu hjá þeim þegar við og fleiri vorum að selja þarna í hlýjunni innandyra að vetrarlagi. Þetta hjálpaði okkur að safna í sjóði félagsins. Já, því miður hefur öll þessi sala þurrkast alveg út í göngugötunni hjá Nettó. Við erum að styðja við samfélagið okkar og höfum gert í mörg ár. Ásamt því að styðja einstaklinga og fjölskyldur höfum við stutt sjúkrahúsið í mörg ár, hjúkrunarheimilið Nesvöllum, Björgina geðræktarfélag, SÁÁ, Bleiku slaufuna og einnig íþróttafélagið NES. Það er nóg af verkefnum sem við getum stutt og viljum styðja,“ segir Salome sem vonast eftir að Samkaupsmenn skipti um skoðun og leyfi aftur styrktarsölu í göngugötunni.
Komdu á fund 5. nóvember!
Félagskonur funda einu sinni í mánuði á veturna og eru yfirleitt með einhverskonar fræðslu eða skemmtun á fundum. Það er einnig boðið upp á heimagert fínerí sem félagskonur skipta á milli sín að búa til og koma með. Utanlandsferðir hafa einnig verið á dagskránni og nú síðast fjölmenntu Kvenfélagskonur til Prag í októbermánuði. Á kvenréttindadaginn 19. júní er ávallt farið í rútuferð innanlands. „Þetta er bara svo gaman. Skemmtilegur félagsskapur og svo gott að finna að ég er að gera gagn fyrir samfélagið,“ segir Salome og Fríða tekur undir þessi orð: „Já yndislegt í gegnum tíðina að geta látið gott af sér leiða og vera með í þessum skemmtilega hópi kvenna.“
Þær Salome og Fríða vilja hvetja nýjar konur til þess að fjölmenna á næsta fund sem haldinn verður mánudaginn 5. nóvember klukkan 20:00 í sal Rauða Kross hússins við Iðavelli Reykjanesbæ.
Kvenfélagskonur saman í Prag.
Þuríður Sveinsdóttir er virk í Kvenfélaginu.
Mér leið strax vel á fyrsta fundi
- segir Þuríður Sveinsdóttir sem byrjaði nýlega í Kvenfélagi Keflavíkur
Nýjar konur bætast reglulega í hóp Kvenfélags Keflavíkur. Þuríður Sveinsdóttir er ein þeirra en hún byrjaði fyrr á þessu ári og er mjög ánægð með þær hlýju móttökur sem hún fékk þegar hún mætti á fyrsta fundinn sinn.
„Ég byrjaði í apríl 2018 en ég hafði misst manninn minn úr krabbameini í ágúst 2017 og átti erfitt tilfinningalega þegar mágkona mín og besta vinkona, Brynja Jóhannesdóttir, bauð mér að koma með sér á fund en hún var búin að vera eitt ár í félaginu. Hún var búin að reyna að fá mig til að mæta og ég sló loksins til þar sem mig vantaði að vera í einhverjum félagsskap fyrir utan vinnu,“ segir Þuríður. Það var líklega erfitt að taka þessi fyrstu skref en móttökurnar voru svo notalegar að hún skráði sig í félagið sama kvöld.
Að finna aftur gleði og hlakka til
„Mér leið strax vel á fyrsta fundinum og skráði mig í félagið. Þetta var síðasti fundurinn fyrir sumarið og framundan var ferðalag í Vindáshlíð. Við fórum með rútu og gengum um svæðið og borðuðum svo saman. Það var spilað á gítar og sungið, þetta var mjög skemmtileg ferð. Í maí var svo hattakvöld og þar var mikið hlegið. Við vorum með fjáröflun 17. júní, kaffisölu þar sem við bökuðum allar eina til tvær kökur hver og seldum. Mér skilst að þetta sé mesta fjáröflun kvenfélagsins í dag. Á Ljósanótt höfum við verið að selja pönnukökur og kleinur,“ segir Þuríður Sveinsdóttir sem segir þennan félagsskap hafa hjálpað henni í gegnum sorgina.
„Að gefa af sér og hjálpa öðrum er það besta. Að hjálpa þeim sem þurfa á því að halda, mér líður best með það og svo held ég að þetta hjálpi mér líka í sorginni, að finna aftur gleði og hlakka til einhvers. Ég er kannski ekki búin að kynnast mörgum konum ennþá en það kemur. Mér líst vel á þær allar og hlakka til að mæta á fundi með þeim,“ segir Þuríður að lokum um leið og hún hvetur allar konur til að koma á fund 5. nóvember.