Hollt, nærandi og vinsælt
Halla framleiðir hollustu í Grindavík.
Halla María Svansdóttir hafði lengi gælt við þá hugmynd að opna kaffihús í Grindavík. En fyrir tveimur árum ákvað hún að setja á stofn fyrirtæki sitt, Hjá Höllu, þar sem hún framleiðir hollustuvörur fyrir einstaklinga og fyrirtæki.
Gaf tíu poka til fyrirtækja
„Ég útbjó og fór af stað með tíu matarpoka með hádegismat og ýmislegt sem þarf yfir daginn, s.s. safa, þeyting, te og millimál. Valdi svo tíu fyrirtæki, þar sem töluverður umgangur viðskiptavina er, og gaf þeim pokana. Út frá því fór boltinn að rúlla og ég hef ekki þurft að auglýsa neitt,“ segir Halla. Fjöldi skammta sem hún framleiðir fer upp í 60 á dag.
Halla hefur komið sér vel fyrir í öðrum helmingi húsnæðisins þar sem hafnarvigtin var áður.
Í gömlu hafnarvigtinni
Halla byrjaði heima en vegna þess ekki má selja mat sem heimatilbúinn voru pokarnir svokallaðir námskeiðspokar. „Ég setti með matnum áætlun um næringu og málsverði á miða ásamt innihaldslýsingu og fræðslu um einstaka mat. Þannig mátti ég selja matinn og gerði það í eitt ár.“ Hún fékk síðan aðstöðu á Mamma Mia um tíma og færði sig svo í húsnæði gömlu hafnarvigtarinnar við Hafnargötu fyrir innan við ári. Þá hafði verið þar hágreiðslustofa en skipt var um gólfefni, Halla lét setja millihurð og bætti við tækjum. Í framleiðslunni segist Halla reyna að hafa allt hráefni hreint og lífrænt. „Ég næ að gera það mikið þrátt fyrir að það sé dýrt. Svo sæki ég alltaf íslenskt til bænda ef það er hægt. Ég sækir m.a. allan fisk í Vísi og kjúklingakjöt í kjúklingabú föður míns, Svans, sem hefur verið kjúklingabóndi í Grindavík í 30 ár.“
Þeytingarnir eru fjölbreyttir og vinsælir.
Auðvelt pöntunarkerfi
Halla segir fólk vera farið að hugsa meira um heilsuna en áður og gaman sé að sjá hvað því finnst gott að sem hún býður upp á. „Einn sagði: Það getur bara ekki verið að þetta sé hollt því þetta er svo gott!“ Margir karlmenn ákveði oft að hollur matur sé óspennandi og ekki góður. Hjá Höllu er hægt að velja um hádegismat, þeyting, eftirrétt, millimál o.s.frv. „Pizzurnar mínar eru öðruvísi en fólk á að venjast og mjög vinsælar, sem og vefjurnar. Ég gef út matseðil á netinu og er með fasta liði á honum ásamt innihaldslýsingum svo að auðvelt er að panta daginn áður en afhending fer fram. Maðurinn minn, sem er kerfisfræðingur í hugbúnaðargerð, bjó til pöntunarkerfi á netinu fyrir fyrirtæki og þau fá þá bara skýrslu þar sem þau geta séð hvað hver starfsmaður pantaði og það er dregið af launum. Sum fyrirtæki niðurgreiða líka. Hver starfsmaður pantar því fyrir sig,“ segir Halla.
Mamma kemur daglega og hjálpar
Rekstur svona fyrirtækis eins og hennar segir hún engan veginn ganga upp nema eiga góða að. „Mamma er með mér á hverjum degi. Hún ætlaði að vera öðru hverju en kemur hingað og er allan daginn. Eftirspurnin hefur leitt mig á þann stað sem ég er í dag. Ég ætlaði að vera bara með framleiðslu fyrir einstaklinga en það hefði ekki gengið eitt og sér, þrátt fyrir að margir komi við.“ Þess vegna er Halla er með framleiðslu fyrir fyrirtæki líka og sendir um Suðurnes og einnig til höfuðborgarsvæðisins, þar sem maðurinn hennar starfar. Í Reykjanesbæ skutlar hún pöntunum í Sporthúsið og þangað sækir fólk sinn skammt, sem kominn er um hálf ellefu á morgnana.
Hollur hafraklatti að hætti Höllu.
Fékk frjálsar hendur í eldhúsinu
Spurð um hvenær áhugi á matargerð hafi kviknað segir Halla að amma hennar og mamma hafi alltaf verið svakalega duglegar í eldhúsinu. „Þær hafa líka verið duglegar að koma með nýjungar og gert sjálfar frá grunni. Ég fékk frjálsar hendur með að baka og elda hvenær sem er. Svo á ég eldri systur sem er svo mikið í heilsupælingum, jógakennari, með heilun og fleira. Ég hef sankað að mér þekkingu frá henni.“ Þegar uppi er staðið segir Halla það sem skiptir máli sé að borða fjölbreytt og geta melt það sem maður innbyrðir. „Vita hvað maður setur ofan í sig og hvað fer vel í mann. Borða reglulega hollt og gott og þá er hægt að leyfa sér meira,“ segir hún að endingu.
Vefsíðu/Facebooksíðu Höllu má finna hér.
VF/Olga Björt