„Höfum okkar kosti á mismunandi sviðum“
Rakel Ársælsdóttir og Gunnar Adam Ingvarsson reka saman tískufataverslunina Mangó við Hafnargötu. Víkurfréttir mældu púlsinn á parinu yfir útsölutímann.
Hvernig gengur pari að reka verslun saman?
Það getur verið voða gaman að vinna saman en það getur líka stundum hitnað í kolunum en við höfum ávalt náð að vinna skemmtilega úr hlutunum.
Hvað hafið þið rekið Mangó lengi?
Við höfum rekið Mangó saman í 4 ár.
Hvort ykkar er betri sölumaður? : )
Það er ekki gott að láta okkur dæma um það hvort okkar sé betri sölumaður. Kúnnarnir eru bestu dómararnir um það, við höfum okkar kosti á mismunandi sviðum og náum því að þjóna öllum.
Hvernig gekk jólaverslunin?
Jólaverslunin gekk mjög vel, umfram því sem við bjuggumst við, við erum mjög ánægð og viljum þakka kærlega fyrir okkur.
Er mikið að gera hjá ykkur yfir útsölutímann?
Eins og flestir vita þá eru útsölurnar í Mangó alltaf algjör sprengja, það eru bara þrjú verð í gangi, það borgar sig að mæta sem fyrst því að það selst yfirleitt mest fyrsta daginn.
Finnst ykkur verslun hafa breyst á Hafnargötunni eftir að gatan var „dúkkuð upp“ í sumar?
Þetta var mjög jákvæð breyting fyrir verslanir Hafnargötunnar, allt er orðið mikið aðgengilegra, nú getum við loksins líkt Hafnargötunni við Laugarveginn.
Eruð þið eitthvað farin að rýna í sumartískuna?
Við erum farin að rýna í sumartískuna, við eigum von á sérsaumaðri Mangó línu um mánaðarmótin næstu sem við hönnum sjálf , en það eru aðallega toppar og bolir, við erum alltaf að keppast við að hafa verðin sem best fyrir kúnnana okkar, þess vegna framleiðum við allt erlendis.
Hvað gera Adam og Rakel þegar þau eru ekki að vinna?
Við förum út að borða, í bíó, við ferðumst mikið og reynum að eyða sem mestum tíma með stelpunum okkar tveimur, Gabríelu (6ára) og Anítu (9ára).
Hverjir eru þrír best klæddu Íslendingarnir að ykkar mati?
Við eigum okkur ekki einhverjar fyrirmyndir í tískunni á Íslandi, við reynum frekar að skapa okkar eigin stíl sjálf, það er mikið til af flottu fólki á Íslandi og erfitt að taka einhver dæmi. „Annars finnst mér mjög gaman að fylgjast með fólki og fá hugmyndir að tískunni,“ segir Rakel að lokum.
VF-myndir/ úr einkasafni
Texti: Jón Björn, [email protected]