Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hljómsveitin STORÐ rokkar með barnakór í Paradís
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 5. júní 2023 kl. 06:22

Hljómsveitin STORÐ rokkar með barnakór í Paradís

Hljómsveitin STORÐ, sem er frá flestum kimum Suðurnesjanna, fór í Stúdíó Paradís í Sandgerði á dögunum en þar ráða ríkjum feðgarnir Jóhann Ásmundsson, kenndur við Mezzoforte, og sonur hans, trymbillinn Ásmundur Jóhannsson.

Þetta væri kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að með í för var barnakór sem er bæði grindvískur og úr Seljakirkju í Reykjavík. Kórnum stýrir Rósalind Gísladóttir sem kennir söng við Tónlistarskóla Grindavíkur en söngkona STORÐAR heitir Sigríður María Eyþórsdóttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Sturla Ólafsson, ásláttarleikari, Bjarni Geir Bjarnason, gítarleikari, Sigga Maya, söngkona, og Logi Már Einarsson, bassaleikari.

Hljómsveitina skipa Sigga Maya eins og hún kallar sig, Bjarni Geir Bjarnason, gítarleikari, Logi Már Einarsson, bassaleikari, og Sturla Ólafsson, ásláttarleikari. Sigga Maya sagði að þetta hefði verið lokahnykkur á upptökum en von er á fyrstu plötu Storðar. „Við stofnuðum hljómsveitina á COVID-tímum og vorum dugleg að æfa og semja. Upptökur hófust síðla árs 2021 en við höfum ekkert verið að flýta okkur. Við áttum eftir að klára upptöku á einu lagi, þ.e. barnakórinn en það er ekki hlaupið að því að fá barnakóra til að syngja inn á lög, þeir eru bókaðir langt fram í tímann. Það kom aldrei neitt annað til greina en að fá barnakór í þetta umrædda lag og við vildum frekar bíða með útgáfu í stað þess að skilja lagið eftir. Við Bjarni Geir, gítarleikari, sömdum lagið sem heitir Deep Black Waters og ég sem textann en það sem barnakórinn syngur er gömul bæn á latínu. Við fengum fyrrum orgelleikara Grindavíkurkirkju, Erlu Rut Káradóttur, til að spila á kirkjuorgel en það var tekið upp á hið frábæra orgel Grindavíkurkirkju. Allt var klárt nema barnakórinn og ég hafði samband við Rósalind Gísladóttur, ég þekki hana í gegnum tónlistarlífið í Grindavík og vissi að hún væri að stjórna barnakór. Við í hljómsveitinni erum himinlifandi með samstarfið við þennan æðislega barnakór, erum mjög þakklát að krakkarnir skyldu nenna að taka þátt í þessu með okkur.“

Rósalind Gísladóttir.

Rósalind sagði að barnakórinn hennar í Seljakirkju í Reykjavík hefði fengið búbót úr Grindavík. „Það hafa verið barnakórar af og til í Grindavík síðan ég hóf störf við tónlistarskólann. Í COVID hrundi kórastarf svolítið niður en ég var með mjög flottan hóp krakka úr Grindavík. Það voru, og eru, mjög fallegar raddir í þessum hópi og ég ákvað að bjóða þeim að taka þátt í aðventutónleikum með barnakór sem ég hef stýrt í Seljakirkju í mörg ár. Svo kom þetta spennandi verkefni upp með STORÐ, ég bar þetta undir krakkana og allir voru spenntir. Æfingar hófust í byrjun árs og gengu alltaf vel. Sigga Maya mætti oft á æfingar og þegar kom að sjálfum upptökunum gekk þetta mjög vel. Lagið liggur ansi hátt en með þjálfun kom það hægt og örugglega. Kórinn var allur tekinn upp í einu og einnig þrír til fjórir í einu, ég held að þetta hafi gengið mjög vel og er mjög spennt að heyra útkomuna,“ sagði Rósalind að lokum.