Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hljómasöngleikur æfður af krafti
Fimmtudagur 18. mars 2004 kl. 16:23

Hljómasöngleikur æfður af krafti

Æfingar á söngleiknum „Bláu augun þín“ sem Nemendafélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja setur upp standa yfir af fullum krafti í Stapanum í Njarðvík. Söngleikurinn er byggður á sögu hinnar keflvísku hljómsveitar Hljóma, sem var vinsælasta hljómsveit landsins um langt skeið á 7. áratug síðustu aldar. Leikstjóri og höfundur söngleiksins er Þorsteinn Eggertsson, en hann hefur samið fjölda laga fyrir Hljóma í gegnum árin og meðal annars hin góðkunnu lög Heim í búðardal og Gamli bærinn minn sem hann samdi í samvinnu við Gunnar Þórðarson. Aðstoðarleikstjóri er Jón Marinó Sigurðsson, Baldur Guðmundsson sér um tónlist, Kjartan Már Kjartansson um kórinn og Anna Lea Björnsdóttir sér um dansana.

Að sögn Hildar Bæringsdóttur kennara við Fjölbrautaskóla Suðurnesja hafa æfingar gengið mjög vel. „Þetta hefur bara allt saman gengið alveg glimrandi vel. Við vildum bara gefa okkur aðeins meiri tíma og þess vegna var tekin ákvörðun um að fresta frumsýningu,“ sagði Hildur í samtali við Víkurfréttir.

Hljómalögin verða áberandi í söngleiknum að sögn Hildar en einnig verða lög frá þessu tímabili. „Það fléttast inn í söngleikinn vinsælar persónur frá þessum tíma og söngleikurinn verður svo sannarlega fyrir alla aldurshópa,“ segir Hildur.

Frumsýningu söngleiksins hefur verið frestað til föstudagsins 26. mars en þá verður um skólasýningu að ræða. 2. sýning verður 31. mars, 3. sýning verður 1. apríl og 4. sýning verður 2. apríl. Sýningarnar hefjast allar klukkan 20.

Miðasala fer fram í versluninni Hljómval og hefst miðvikudaginn 24. mars.

 

 

 

 

Myndirnar: Frá æfingum á söngleiknum Bláu augun þín. VF-ljósmyndir/Héðinn Eiríksson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024