Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hleypur ekki eftir að hafa fengið rándýra íhluti úr titanium
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 6. júní 2024 kl. 07:00

Hleypur ekki eftir að hafa fengið rándýra íhluti úr titanium

Landsmót UMFÍ 50+ hefst í dag í Vogum og er mikil stemning búin að myndast á meðal Vogabúa, sem gera ráð fyrir fjölmörgum gestum þessa löngu helgi. Keppt er í þremur greinum í dag og kvöld og svo rekur hver keppnin aðra fram á sunnudag klukkan tvö þegar mótinu verður slitið.

Víkurfréttir slóu á þráðinn til nokkurra valinkunnra Vogabúa. Birgir Örn Ólafsson er formaður bæjarráðs Sveitarfélagsins Voga, hann á farsælan knattspyrnuferil að baki með Þrótturum, bæði sem leikmaður og þjálfari.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Nú átt þú farsælan feril sem leikmaður knattspyrnuliðs Þróttar og hefur auk þess þjálfað, bæði
ungviðið og meistaraflokk. Hvað er eftirminnilegast frá ferlinum?


Það er stundum sagt að það sé erfitt að gera upp á milli barnanna sinna og það á líka við um ferilinn sem knattspyrnumaður og þjálfari. Ef litið er til innviða og framkvæmda þá rifjar maður upp æfingar á hinum ýmsu grasbölum sveitarfélagsins, s.s. Tumakotstún ofl. en þegar gamli grasvöllurinn (þar sem tjaldsvæðið er í dag) var tekinn í notkun (fyrir mína tíð), þá hlýtur sú framkvæmd að teljast mikil breyting fyrir ungviðið í sveitarfélaginu á þeim tíma. Þetta var unnið í sjálfboðavinnu heimamanna og sýnir elju og dugnað þess tíma. Í seinni tíð eru tvær framkvæmdir sem hljóta að teljast alger umbylting á aðstöðu en þar ber fyrst ber að nefna íþróttahúsið sem varð til þess að nemendur þurftu ekki lengur að sækja sund- og íþróttakennslu til Njarðvíkur og æfingaaðstaðan fyrir íþróttirnar gjörbreyttist og þá sérstaklega yfir veturinn en oft fóru knattspyrnuæfingar fram í íþróttasölum nágranna okkar með allri þeirri fyrirhöfn sem því fylgdi. Síðast en ekki síst er það núverandi íþróttavöllur sem þáverandi bæjarstjórn veitti brautargengi, sem þótti dýr framkvæmd og umdeild á þeim tíma. Óhætt er að segja að þetta íþróttasvæði hafi sannað gildi sitt og mun nýtast enn betur í framtíðinni í stækkandi samfélagi. Við völlinn stendur stúka sem ég kenni oft við „stúkubræður“ en hún var líkt og gamli völlurinn forðum byggð upp í sjálfboðavinnu og sýnir enn og aftur hversu mikilvægt er að eiga góða sjálfboðaliða að.

Af íþróttaviðburðum þá er tveir viðburðir sem skjóta fljótt upp kollinum. Annars vegar er það sigur Þróttar á Val U23 í bikarkeppni KSÍ þar sem liðið spilaði einum manni færri lungað úr leiknum. Það er ekki loku fyrir það skotið að baráttuandi þessa liðs hafi magnast upp við þær fréttir fyrir leik að Valur vildi ekki að nýta grasvöllinn sinn fyrir leikinn heldur buðu upp á malarvöll sem mætti helst líkja við bílastæði. Það er oft sagt að allt geti gerst í bikarleikjum og þessi leikur sem endaði 2-3 fyrir Þrótti var sannarlega í anda þess. Hinn viðburðurinn hlýtur að vera einn Suðurnesjatitillinn sem yngri flokkur Þróttar sótti til Sandgerðis. Oft þurftu yngri leikmenn að spila upp fyrir sig sökum fæðar til að manna flokka og er það ákveðin áskorun en um leið ein besta leiðin til að efla sig í íþróttinni.

Sagan segir að þú labbir Línuveginn í Vogum í hverri viku, er það eina líkamsræktin sem þú stundar í dag?


Ganga er vanmetin hreyfing. Ég var ekki mikill talsmaður hennar hér forðum en hef áttað mig á því að hún gefur líklega mestu fjölbreyttnina, úti í náttúrunni, hratt, hægt, í félagsskap eða án, með fuglasöng eða hlaðvarp í eyrunum og hvar sem er. Það er allstaðar hægt að ganga. Ég fer líka í ræktina og syndi, helst alla virka daga og mæti kl. 6:00 þegar hinir árvökulu „pottormar“ mæta til leiks til ræða öll heimsins mál. Það eru bestu dagarnir, sem maður nær að byrja þannig.


Ætlarðu að sleppa Línuveginum 7. júní og í staðinn skrá þig til leiks og taka styttri vegalengdina í Strandarhlaupinu?


Ég hleyp ekki eftir að ég fékk rándýra íhluti úr Títaníum fyrir nokkrum árum. Ef ég ákveð að taka Strandarlabb þá mun það ekki virka, ég er of mikill keppnismaður og mun hlaupa þó ég hafi ákveðið annað.


Muntu mæta á heimatónleika?

Já, ætla að mæta á pallinn til Hönnu og Rúnars. Það getur ekki klikkað.