Hlaupa fyrir veika frænku sína
Fjölskyldan stendur þétt við bakið á Heiðu
Fjölmargir Suðurnesjamenn ætla sér að hlaupa til góðs þegar Reykjavíkurmaraþonið fer fram þann 23. ágúst næstkomandi. Þeirra á meðal er hópur sem hleypur fyrir Keflvíkinginn Bjarnheiði Hannesdóttur sem þjáist af heilaskaða. Frænkur hennar þær Arna Björg Jónasdóttir og Sigrún Halldórsdóttir ætla að hlaupa fyrir Styrktarhóp Heiðu ásamt fjölda ættingja og vina Heiðu. Heiða fékk hjartastopp í lok árs 2012 og í kjölfarið hlaut hún miklar heilaskemmdir vegna súrefnisskorts. Heiða var á gjörgæslu og á hjartadeild og í kjölfarið dvaldi hún á Grensásdeild í tæpt ár. Heiða er algjörlega ósjálfbjarga, bundin við hjólastól og er sjón hennar og mál afar skert. Eftir að Heiða fór af Grensásdeild hefur fjölskyldan hennar hugsað um hana en Heiða á þrjú ung börn og sambýlismann.
„Við stöndum sterk saman“
Tilgangur Hlaupahóps Heiðu er að safna nægu fjármagni svo að Heiða komist í stofnfrumumeðferð erlendis og að styðja við bakið á henni og fjölskyldu hennar. Sigrún segist vera búin að æfa í tæpa tvo mánuði fyrir hlaupið nú þegar. Hún er í hlaupahóp þar sem nokkrar hressar hlaupaskvísur hittast snemma á morgnana í Laugardalnum tvisvar í viku. Sigrún segir að allnokkrir úr fjölskyldunni ætli sér að hlaupa auk hennar og Örnu. „Við stöndum sterk saman, þeir sem hlaupa ekki styrkja með öðrum hætti svo sem fjárstuðningi eða öðru slíku. Svo er skemmtilegt að sjá hvað við stórfjölskyldan erum dugleg að minna á hlaupahópinn okkar #teamHeiða á öllum samfélagsmiðlum.“ Unnusti Sigrúnar er grínistinn Pétur Jóhann Sigfússon en hann lét sig hafa það að hlaupa 21 km í hlaupinu í fyrra. „Fyrst hann kláraði það með sóma þá vænti ég þess að ég komist einnig í mark! Mér fannst ekkert annað koma til greina en að hlaupa 21 km í ár til stuðnings elsku Heiðu frænku minnar og er hún mér ávallt efst í huga á erfiðum hlaupaæfingum,“ segir Sigrún sem aldrei hafði hlaupið lengri vegalengd en 3 km áður en hún ákvað að slá til núna.
Arna hafði einungis farið í Latabæjarhlaupið með dóttur sinni áður en ákvörðunin var tekin um að taka þátt í ár. Hún ætlaði sér upphaflega að hlaupa hálft maraþon enda taldi hún það lítið mál. „Ég hef aldrei verið mikill hlaupagarpur og ætlaði sko aldeilis að skella mér í hálft maraþon, en sá fljótlega að það væri kannski heldur mikil bjartsýni miðað við skamman undirbúning, þannig að ég ætla að hlusta á líkamann og fara 10 km,“ segir Arna. Hún segist stundum fá lánaðan hund þegar hún er að æfa. „Henni finnst mjög gaman að hlaupa og vefja bandinu í kringum mig þegar ég stoppa sem olli því t.d. að ég flaug yfir gangbraut um daginn. Kannski er bara málið að vera ekkert að stoppa?,“ segir Arna hress í bragði. Hún vonast til þess að sem flestir verði með í hlaupinu. „Ég treysti svo á að hinir verði duglegir á hliðarlínunni og í áheitunum.“
Þær frænkur biðla til allra Suðurnesjamanna að standa saman og leggja málefninu lið. „Margt smátt gerir eitt stórt. Allir eru svo hjartanlega velkomnir í að hlaupa með okkur fyrir Heiðu og fjölskyldu. Það verður mikið húllumhæ í kringum hlaupahópinn okkar. Bæði verður gaman fyrir alla að taka þátt sem og það skilur eftir svo gott í hjartanu,“ segir Sigrún að lokum.
Hlaupahópur Heiðu, eða Team Heiða, hefur nú safnað mestu af öllum þeim hópum sem ætla að láta gott af sér leiða. Alls hafa safnast um 740 þúsund krónur þegar þetta er skrifað en leggja má málefninu lið á heimasíðu hlaupastyrks: Hlaupastyrkur Team Heiða.