Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hjón saman í námi við Keili eftir tuttugu ára hlé á skólagöngu
Ingvar Ingvarsson og Sigríður Ella Kristjánsdóttir.
Sunnudagur 20. júní 2021 kl. 07:12

Hjón saman í námi við Keili eftir tuttugu ára hlé á skólagöngu

Hjónin Ingvar Ingvarsson og Sigríður Ella Kristjánsdóttir ákváðu að skella sér saman í nám við Keili á Ásbrú í aðdraganda kórónuveirufaraldursins. Þau höfðu hvorugt lokið við framhaldsskólanám og ákváðu að kominn væri tími á það, tuttugu árum síðar. Þú voru rétt sest á skólabekk þegar Covid-19 skall á. Þau létu það ekki slá sig út af laginu og hrósa einnig Keili fyrir það hvernig námið var tæklað í faraldrinum.

– Hvernig er það fyrir hjón að fara saman í nám?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sigríður Ella: „Það er alveg frábært. Það er svo gott að hafa stuðninginn hvort frá öðru. Það er þægilegt námið við Keili, þar sem þú getur tekið eitt fag í einu. Það er kosturinn sem við sáum við þetta en ekki að vera með mörg fög í einum hrærigraut þar sem allt fer í klessu. Mér leist bara mjög vel á þetta.“

– Áttuð þið í erfiðleikum í framhaldsskóla áður fyrr?

Sigríður Ella: „Já, sérstaklega ég. Ég er með lesblindu og hefur alltaf gengið brösuglega en þegar ég heyrði af því hvernig þetta er hjá Keili, að maður geti tekið eitt fag í einu, þá sá ég að þetta væri tækifæri fyrir mig. Þetta er kannski eitthvað sem ég ætti að prófa. Svo kom upp spurningin hjá mér hvort ég ætti að þora ein og ég spurði manninn minn hvort hann væri ekki bara til í að koma með mér og hann sagðist bara kýla á þetta með mér.“

– Og hvernig var svo að fara með frúnni í nám?

Ingvar: „Þetta var mjög sérstakt eftir tuttugu ára hlé frá skóla. Þetta er frábær skóli og skipulagið er mjög þægilegt að taka í mesta lagi tvo áfanga í einu. Það hjálpar mjög mikið ásamt frábærum kennurum. Það skiptir svo miklu máli. Svo eru fyrirlestrarnir þannig að þú getur spólað aftur og aftur ef þú ert í vandræðum. Prófin eru þægileg og það er góður grunnur í öllum fögum fyrir próf.“

– Fannst þér mikill munur að fara í skóla núna miðað við fyrir tuttugu árum þegar þú varst síðast í námi og að byrja í fjölbraut?

Ingvar: „Já, maður er búinn að þroskast og miklu meira tilbúinn í þetta verkefni. Maður var miklu skipulagðari og það er allt önnur tækni sem maður notar. Ég mæli hiklaust með þessum skóla við þá sem eru að spá í námi í dag. Það er bara málið.“

– Eruð þið með framtíðadrauma eftir þetta?

Sigríður Ella: „Það er ekkert planað en maður er allavega orðin útskrifaður úr námi. Það hafa opnast nýjar dyr og hver veit hvað maður gerir. Það er ómögulegt að átta sig á því.“

Ingvar: „Það er ekkert planað og heldur ekkert útilokað.“

– Maður upplifir það hér við útskriftina að það hafi verið góður andi í hópnum í náminu.

Sigríður Ella: „Þetta er alveg yndislegt. Maður fær svo jákvætt viðmót. Það eru allir að peppa mann svo upp og nemendurnir eru duglegir að hjálpast að. Ef einn skilur ekki eitthvað, þá er næsti tilbúinn að hjálpa. Það er mikil samvinna í náminu og það hjálpar mjög mikið. Ég myndi vilja segja við alla sem eru eitthvað að hugsa eða hika; þú getur þetta alveg. Kíktu á Keili, hann er klárlega skólinn.“

– Voruð þið hlið við hlið heima að læra?

Ingvar: „Stundum, ekki alltaf. Ef það hentaði og við vorum í sama hóp. Oft var ég í allt öðrum hópi heldur en hún og á Teams-fundi annars staðar.“

– Þið hófuð nám fyrir Covid, haustið 2019, stundið námið í faraldrinum og eruð að klára námið núna þegar Covid er að enda, þannig að þetta er búinn að vera rússíbani.

Ingvar: „Þetta er búið að vera svakalegt. Við tókum eitt próf í janúar og einhverja stoðtíma, annars var bara allt á netinu. Aðferðirnar eru bara svo frábærar hjá þeim, þannig að þetta er bara algjör snilld hvernig skólinn tæklaði þennan faraldur.“

Sigríður Ella: „Já, við fengum að taka eitt próf og fara á nýnemadaginn. Mér finnst alveg frábært hvernig kennararnir hafa haldið utan um nemendur sína. Ef við þurftum sérstaklega aðstoð þá voru settir upp Teams-fundir til að útskýra og allt lagt upp úr því að efnið kæmist til skila.“

– Haldið þið að það séu margir þarna úti í samfélaginu á svipuðu reki og þið að hugsa um nám?

Ingvar: „Já, ég hugsa það. Ég held að það séu margir búnir með eitthvað af einingum í framhaldsskóla og séu að spá í námi. Ef svo er, þá mæli ég hiklaust með Keili. Alveg klárlega, þið getið þetta.“