Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hjóla Jakobsstíginn til styrktar kvennasveitinni
Laugardagur 27. apríl 2013 kl. 08:44

Hjóla Jakobsstíginn til styrktar kvennasveitinni

Kvennasveitin Dagbjörg er yngsta og ein virkasta slysavarnadeildin innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar og er nú að byrja 10. starfsárið sitt.
Sveitin var stofnuð með þau markmið að vera bakhjarl Björgunarsveitarinnar Suðurnes og vinna að slysavörnum á heimilum og almennt í bæjarfélaginu. Í þessi 10 ár hefur sveitin aðstoðað og unnið að mörgum góðum verkefnum fyrir Björgunarsveitina og stutt við bakið á þeim með gjöfum.

Sveitin er líka virk í slysavörnum í bæjarfélaginu og má helst telja slysavarnaverkefnið „Glöggt er gests augað“ sem Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur nú tekið upp á sína arma og er það framkvæmt á landsvísu en við byrjuðum með þetta verkefni hér í Reykjanesbæ 2006.

Foreldrum sem koma með börn sín í átta mánaða skoðun hjá ungbarnaeftirliti HSS er færður pakki frá Kvennasveitinni með gátlista um slysavarnir í umhverfi barna, bækling um öryggi barna á heimilum og fingravin (klemmuvörn fyrir litla fingur). Þá heimsækjum við alla grunnskóla bæjarins og gefum börnum í 1. bekk endurskinsmerki við upphaf skólagöngu.

Nýjasta verkefnið er hjóladagur þar sem við setjum upp hjólaþrautir, fræðum börn um öryggisatriði hjólanna og hvetjum þau  til að nota hjólahjálma. Þetta verkefni er unnið við einn skóla í samstarfi við SL og Sjóvá en verða vonandi við fleiri skóla á komandi árum.

Einnig framkvæmum við öryggiskannanir á vegum SL og Umferðarstofu eins og öryggi barna í bílum, hjálmanotkun og bílbeltakannanir. Við vitum um enn fleirri verkefni sem við gætum farið í og höfum fullan hug á að reyna að koma í framkvæmd með tímanum og fjölgun félagsmanna, eins og að gæta að slysahættum í bænum okkar og huga að öryggi við hafnir og bryggjur.

Fjáraflanir eru líka stór hluti af verkefnum Kvennasveitarinnar og hafa þær verið margs konar og þó að sagt sé að við höfum „bakað“ mikið af tækjum og tólum björgunarsveitanna þá eru slysavarnakonur hugmyndaríkar og tilbúnar að leggja ýmislegt á sig fyrir hugsjónir sínar.

Heimili Kvennasveitarinnar er í húsnæði Björgunarsveitarinnar Suðurnes sem er í raun orðið allt of  lítið til að bera alla þá starfsemi sem þar fer fram og því var ákveðið á síðasta aðalfundi Kvennasveitarinnar að stofna sjóð sem myndi vera grunnur að því að stækka það húsnæði sem sveitirnar þurfa fyrir starfsemi sína.

Nú ætla þrjár konur úr sveitinni, Kristbjörg, Ásta og Sólbjörg, (samtals eru þær 160 ára), að leggja í langferð og langar okkur að nýta ferðina í fjáröflun og styðja þannig við sjóðinn „Framtíðarheimili fyrir Kvennasveitina Dagbjörgu“.

Þær ætla að fara til Spánar og hjóla rúmlega 800 km leið eftir hinni fornu pílagrímaleið, Jakobsvegi sem heitir eftir Jakobi, einum af lærisveinum  Jesús. Ferðin byrjar í litlu þorpi sem heitir Roncesvalles, rétt við landamæri Spánar að Frakklandi og endar í borginni Santiago de Compostela, en þar er hin stórkostlega dómkirkja sem var byggð utan um grafreit hins heilaga Jakobs. Þær leggja af stað 30. apríl og ætla sér 14 daga til að komast þessa leið. Ferðakostnað greiða þær úr eigin vasa.

Þær ætla að setja fréttir af ferðinni á heimasíðu Kvennasveitarinnar á Facebook, slóðin er  https://www.facebook.com/#!/kvennasveitindagbjorg?fref=ts  og vonast þær til að sem flestir fylgist með (allir sem biðja um aðgang verða samþykktir) og sendi þeim góðar hjólakveðjur um leið og þeir styðja við þessa krefjandi en skemmtilegu og óvenjulegu fjáröflun.

Þeir sem vilja styðja við þetta fjáröflunarverkefni er bent á reikning Kvennasveitarinnar sem er 0541-04-760400, kt. 700404-5280. Engin upphæð er of lítil.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024