Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hjóla 800 km. á Spáni fyrir kvennasveitina sína
Þriðjudagur 23. apríl 2013 kl. 18:31

Hjóla 800 km. á Spáni fyrir kvennasveitina sína

Þrjár konur úr Kvennasveitinni Dagbjörgu í Reykajnesbæ, þær Kristbjörg, Ásta og Sólbjörg, ætla að leggja í langferð. Þær ætla að fara til Spánar og hjóla rúmlega 800 km leið eftir hinni fornu pílagrímaleið, Jakobsvegi sem heitir eftir Jakobi, einum af lærisveinum  Jesús.

Ferðin byrjar í litlu þorpi sem heitir Roncesvalles, rétt við landamæri Spánar að Frakklandi og endar í borginni Santiago de Compostela, en þar er hin stórkostlega dómkirkja sem var byggð utan um grafreit hins heilaga Jakobs.

Þær leggja af stað 30. apríl og ætla sér 14 daga til að komast þessa leið. Ferðakostnað greiða þær úr eigin vasa. Þær ætla hins vegar að nota ferðina til að afla fjár til húsbyggingar undir starfsemina.

„Heimili Kvennasveitarinnar er í húsnæði Björgunarsveitarinnar Suðurnes sem er í raun orðið allt of  lítið til að bera alla þá starfsemi sem þar fer fram og því var ákveðið á síðasta aðalfundi Kvennasveitarinnar að stofna sjóð sem myndi vera grunnur að því að stækka það húsnæði sem sveitirnar þurfa fyrir starfsemi sína,“ segir í grein um fyrirhugað ferðalag þeirra sem birt er í Víkurfréttum á morgun.

Þær ætla að setja fréttir af ferðinni á heimasíðu Kvennasveitarinnar á Facebook, slóðin er  https://www.facebook.com/#!/kvennasveitindagbjorg?fref=ts  og vonast þær til að sem flestir fylgist með (allir sem biðja um aðgang verða samþykktir) og sendi þeim góðar hjólakveðjur um leið og þeir styðja við þessa krefjandi en skemmtilegu og óvenjulegu fjáröflun.

Þeir sem vilja styðja við þetta fjáröflunarverkefni er bent á reikning Kvennasveitarinnar sem er 0541-04-760400, kt. 700404-5280. Engin upphæð er of lítil.

- Sjá nánar í Víkurfréttum á morgun.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024