Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hjartavernd á búningum Reynis í stað Landsbankans
Þriðjudagur 10. maí 2011 kl. 16:59

Hjartavernd á búningum Reynis í stað Landsbankans

Knattspyrnudeild Reynis Sandgerðis og Landsbankinn hafa gert með sér samstarfssamning um stuðning bankans við allar deildir félagsins næstu árin.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samhliða því hefur Landsbankinn afsalað sér auglýsingum á búningum hjá Reyni og boðið félaginu að velja sér í staðinn gott málefni á búningana. Reynir valdi Hjartavernd. Merki félagsins prýðir því búninga félagsins næstu ár.

Landsbankinn kynnti síðastliðið haust nýja stefnu í stuðningi bankans við íþróttafélög undir yfirskriftinni Samfélag í nýjan búning. Markmiðið er að tengja saman stuðning bankans við íþróttir og mannúðarmál. Reynir Sandgerði er fimmtánda félagið sem gengur í samstarf við Landsbankann um Samfélag í nýjan búning.

Stofnaður verður áheitasjóður fyrir Hjartavernd og greiðir bankinn ákveðna upphæð fyrir hvern sigur meistaraflokka Reynis karla og kvenna á Íslandsmótum í knattspyrnu. Öðrum fyrirtækjum og einstaklingum er frjálst að heita á liðið sitt og leggja þannig góðu málefni lið. Í tilefni af stofnun áheitasjóðsins mun Landsbankinn styrkja Hjartavernd með styrk að upphæð  500.000 krónur.

„Við erum mjög stolt af stuðningi okkar við Reyni. Hugmyndafræði bankans að baki verkefninu Samfélag í nýjan búning snýst um að tengja saman íþróttafélög og samtök eða félög sem láta að sér kveða í mannúðarmálum,“ segir Einar Hannesson, útibússtjóri Landsbankans í Reykjanesbæ. „Með þessum hætti geta íþróttafélögin og stuðningsmenn þeirra eða aðrir styrktaraðilar tekið þátt í því með Landsbankanum að styðja við mannúðarmál.“

Fyrirmyndir verkefnisins
Verkefnið Samfélag í nýjan búning á sér fyrirmyndir. Í tengslum við Landsbankadeild karla og kvenna stóð Landsbankinn fyrir verkefninu Skorað fyrir gott málefni á árunum 2006-2007. Bankinn greiddi þá ákveðna upphæð fyrir hvert mark sem liðin skoruðu í tilteknum umferðum Landsbankadeildarinnar og rann hún til málefna sem félögin völdu sér. Markmiðið var þá eins og nú að tengja saman stuðning við íþróttir og mannúðarmál. Landsbankinn sækir einnig innblástur í framtak meistaraflokks kvenna í Aftureldingu sem síðustu þrjú ár hefur vakið athygli á árvekniátakinu Bleiku slaufunni með því að hafa hana framan á búningum liðsins.

Mynd: Frá undirritun samstarfssamnings Reynis Sandgerði og Landsbankans.