Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hinsta óskin uppfyllt
Fimmtudagur 27. júlí 2006 kl. 11:41

Hinsta óskin uppfyllt

Ösku af Annie Elisabeth Bates var dreift yfir þann stað sem HMS Southern Flower var skotið  niður um 10 sjómílur vestur af Sandgerði í seinni heimsstyrjöldinni árið 1945. Helga Ingimundardóttir, eigandi Ferðaþjónustu Suðurnesja, fór með börn og barnabörn Annie í hinstu ferð „Little Nan“ eins og Annie Elisabeth var alltaf kölluð.

Eiginmaður Annie var loftskeytamaður á HMS Southern Flower og fór niður með skipinu þegar þýskur kafbátur grandaði bátnum. Skipstjórinn var sá eini sem komst lífs af í sprengingunni en hann var í brúnni og skaust þaðan út í sjó sökum þrýstings frá sprengjunni.
David Coles, barnabarn Annie, lagði á sig mikla vinnu við að finna út hvar báturinn hefði farið niður en eftir ítarlegar rannsóknir sem fóru aðallega fram á internetinu komst hann að því að HMS Southern Flower hefði verið grandað um 10 sjómílur vestur af Sandgerði. Það hafði verið hinsta ósk Annie „Little Nan“ að láta dreifa ösku sinni yfir þann stað er HMS Southern Flower fór niður svo hún gæti varið eilífðinni með eiginmanni sínum. Annie varð 95 ára gömul og var það dóttir hennar, móðir David Coles, sem fór fyrir hópnum sem dreifði ösku Annie.

17. júní var tilfinningaþrunginn dagur hjá þessari bresku fjölskyldu þegar öskunni var stráð yfir slysstaðinn en veður var fremur vont í sjóinn. Hópurinn var ánægður þegar verkefninu var lokið og nú hefur „Little Nan“ fengið sína hinstu hvílu. Ferðir af þessu tagi verða æ algengari sagði Helga Ingimundardóttir hjá Ferðaþjónustu Suðurnesja en breski hópurinn fór með Helgu um borð í Moby Dick til þess að koma „Little Nan“ fyrir hjá eiginmanni sínum sem lést fyrir rúmum 60 árum.

Myndir: Ferðaþjónusta Suðurnesja

Mynd 1: Hópurinn utan við Hótel Keflavík

Mynd 2: Ösku af Little Nan dreift yfir hafflötinn

[email protected]


 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024